Fréttir


1.11.2019

Morgunfundur um vindorku og landslag

Morgunfundaröð um landsskipulagsstefnu

Morgunfundaröð Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu fór vel af stað en fyrsti fundur hennar, tileinkaður vindorku og landslagi, fór fram á CenterHotels Plaza í Aðalstræti þriðjudaginn 29. október. Fundurinn var haldinn í samstarfi við verkefnisstjórn rammaáætlunar og Samband íslenskra sveitarfélaga. Skipulagsstofnun vinnur nú að tillögu til umhverfis- og auðlindaráðherra að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem lögð verður áhersla á þrjú viðfangsefni: loftslag, landslag og lýðheilsu. Málstofuröðin er hluti þeirrar vinnu, en henni er ætlað að vera vettvangur kynningar og samtals um margvísleg verkefni sem unnið er að í tengslum við undirbúning tillögunnar.

Nýting vindorku er nýtt viðfangsefni í skipulagsgerð á Íslandi og hefur umhverfis- og auðlindaráðherra falið Skipulagsstofnun að fjalla um skipulag vindorkunýtingar með tilliti til landslags í viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu, ásamt því að setja fram viðmið fyrir ákvarðanir um slíka nýtingu. Á morgunfundinum á þriðjudag var gerð grein fyrir yfirstandandi vinnu við undirbúning landsskipulagsstefnu og fjallað um samspil vindorkunýtingar og landslagsverndar frá sjónarhóli skipulagsgerðar. Matthildur Kr. Elmarsdóttir skipulagsfræðingur hjá Alta kynnti fyrirmyndir sem hún hefur tekið saman um stefnumörkun í vindorkumálum í Skotlandi og Noregi, t.a.m. um viðmið sem þróuð hafa verið til að skilgreina svæði sem ekki koma til greina fyrir vindorkuver. Þá fjallaði Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar um umhverfisáhrif vindorkuvera og Sigurjón Kjærnested frá Samorku kynnti sjónarmið Samorku varðandi skipulag og leyfisveitingar vegna vindorkunýtingar hér á landi. Að lokum kynnti Ólafur Árnason frá EFLU verkfræðistofu yfirstandandi vinnu við landslagsflokkun fyrir Ísland, en stefnt er að því að henni ljúki í febrúar á næsta ári. Góðar umræður sköpuðust í lokin sem ásamt framsögum verða gott innlegg í þá vinnu sem framundan er við gerð tillögunnar.

Fyrirhugað var að halda fundinn í húsnæði Skipulagsstofnunar en vegna mikillar aðsóknar var hann fluttur í stærra húsnæði. Skipulagsstofnun þakkar góða þátttöku, bæði þeim sem komu á fundinn og þeim sem fylgdust með í streymi á vefnum. Umfjöllunarefni næsta morgunfundar verður Skipulag í dreifbýli – samfélag, landslag og loftslag og verður frekari dagskrá kynnt þegar nær dregur.

Nálgast má glærur framsögufólks hér