Fréttir


  • Skipulags- og umhverfismatsdagurinn 2020

21.11.2020

Vel heppnaður Skipulags- og umhverfismatsdagur að baki

Skipulags- og umhverfismatsdagurinn var haldinn með fjölbreyttri og efnismikilli dagskrá á vefnum 13. nóvember sl. undir yfirskriftinni Rými fyrir mannlíf og samtal.

20 mínútna bærinn

Í fyrri hluta dagskrárinnar var sjónum beint að skipulagshugmyndinni um 20 mínútna bæinn og vikið að erlendum og innlendum dæmum um skipulag í anda hugmyndarinnar. Meðal frummælenda í þeim hluta dagskrárinnar voru Guro Voss Gabrielsen frá Kommunal- og moderniseringsdepartementet í Noregi og Robert Huxford frá Urban Design Group í Bretlandi.

Sjálfbærni grundvallarmarkmið

Guro fjallaði meðal annars um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hvernig unnið er með þau við skipulagsgerð í Noregi. Hún benti á að þótt heimsmarkmiðin virðist hafa meiri skírskotun til aðstæðna annars staðar í heiminum, þá þurfi Noregur og önnur Norðurlönd einnig að glíma við ákveðnar áskoranir við innleiðingu þeirra, meðal annars við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og tryggja heilsu og vellíðan. Hún benti á að best verði unnið að mörgum heimsmarkmiðanna staðbundið og þar hafi skipulagsgerð sveitarfélaga mikilvægu hlutverki að gegna. Í því samhengi væri verkefni ríkisins ekki síst að leggja sveitarfélögum til skýra umgjörð og leiðbeiningar.

Leiðbeiningar og viðurkenningar fyrir aðlaðandi bæi og bæjarrými
Guro sagði í því sambandi frá handbók sem norsk stjórnvöld hafa gefið út um skipulag og hönnun bæjarrýma. Hún er ætluð sveitarfélögum til að nýta við skipulagsgerð og gengur út frá mikilvægi bæjarrýma fyrir velgengni bæja, bæjarlíf og vellíðan íbúa. Í handbókinni er áhersla lögð á að horfa ekki eingöngu á einstök bæjarrými, svo sem torg eða almenningsgarða, heldur að líta til samtengds kerfis ólíkra bæjarrýma. Í handbókinni eru sett fram viðmið til að nýta við mat á gæðum bæjarrýma. Þau varða athafnir eða notkun bæjarrýmis, aðgengi að bæjarrými, tengsl ólíkra bæjarrýma, gæði bæjarrýmis sem felast í hönnun þess og útfærslu og þá náttúru sem er að finna í viðkomandi bæjarrými. Að lokum sagði Guro frá viðurkenningum sem veittar eru árlega í Noregi til staða sem þykja skara fram úr við skipulag og hönnun bæjarrýma.

Gatnahönnun sem svarar áskorunum okkar tíma

Robert Huxford frá Urban Design Group í Bretlandi hóf mál sitt á að vísa til þeirra stóru áskorana sem samfélagið þarf að kljást við vegna loftslagsbreytinga og þróunar í lýðheilsu, svo sem vegna offitu og lífsstílstengdra sjúkdóma. Hann lýsti því hvernig vinna má að árangri í þessum efnum með gatnahönnun sem setur gangandi og hjólandi í forgang og tekur mið af þörfum ólíkra hópa í samfélaginu, svo sem barna, fatlaðra og aldraðra. Hann vísaði í því sambandi til nýlegra rannsókna sem sýna að börn eiga erfitt með að skynja bíl á ferð sem ekur hraðar en 30 km á klst. Einnig vísaði hann til rannsókna sem sýnt hafa fram á mikilvægi þess að nýta gatnahönnun til að hvetja ökumenn til að draga úr ökuhraða, svo sem með því að takmarka breidd akbrauta og sjónlengdir og útfæra gatnamót út frá þörfum þeirra sem ganga og hjóla.

Gatnahönnun fyrr og nú
Þá fór Robert á aðgengilegan hátt yfir sögulega þróun í hönnun gatna frá því fyrir bílaöld og vék að þeim mikla forgangi sem almennt hefur verið settur á greiða umferð bíla á seinni hluta 20. aldar og fram á okkar tíma. Robert endaði þessa sögulegu yfirferð á því að fara yfir ýmis hagnýt hönnunarviðmið fyrir gatnakerfi og gatnahönnun, þar sem útgangspunkturinn er á götuna sem bæjarrými ekki síður en umferðaræð.

Víða komið við

Aðrir sem fjölluðu um 20 mínútna bæinn á Skipulags- og umhverfismatsdeginum voru Hrafnhildur Bragadóttir hjá Skipulagsstofnun sem fjallaði um 20 mínútna bæinn í samhengi landsskipulagsstefnu, Ólöf Örvarsdóttir hjá Reykjavíkurborg, en fyrirlestur hennar nefndist „Meiri borg – betri borgarblær“, og Óskar Örn Gunnarsson hjá Landmótun sem fjallaði um 20 mínútna bæinn Hvolsvöll. „Gönguvænn Grundarfjörður – greining, skipulag, framkvæmd“ var yfirskrift erindis Matthildar Kr. Elmarsdóttur hjá Alta og Helena Guttormsdóttir frá Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um hag af norrænu samstarfi fyrir litla og meðalstóra bæi.

Glærur og upptökur frá deginum má nálgast hér.