Fréttir


  • Reykjafjordur

14.10.2016

Veiting framkvæmdaleyfa

Nýverið kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð vegna veitingar framkvæmdaleyfis Skútustaðahrepps til lagningar Kröflulínu 4. Í úrskurðinum er framkvæmdaleyfið fellt úr gildi vegna þess að skort hafi á rökstuðning sveitarstjórnar og að sveitarstjórn hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Þá hafði framkvæmdaleyfið ekki verið auglýst.

Af þessu tilefni minnir Skipulagsstofnun skipulagsfulltrúa og aðra þá sem koma að undirbúningi framkvæmdaleyfisveitinga sveitarfélaga á að við útgáfu framkvæmdaleyfa vegna matsskyldra framkvæmda þarf sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Feli álitið í sér að framkvæmdin muni hafa mikil neikvæð umhverfisáhrif að mati stofnunarinnar gerir það strangar kröfur til rökstuðnings sveitarstjórnar við veitingu leyfisins.

Jafnframt þarf sveitarstjórn að kanna hvort forsendur hafi breyst frá því að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar fór fram og/eða skipulagsákvörðun um framkvæmdina var tekin. Sérstaklega getur þetta átt við ef langur tími líður frá umhverfismati og/eða skipulagsákvörðun, þar til fjallað er um leyfisumsókn. Einnig ef breytingar hafa orðið á lögum eða reglugerðum sem skipta máli fyrir umrædda framkvæmd.

Þá er minnt á að sveitarstjórn ber að auglýsa útgáfu framkvæmdaleyfis opinberlega þegar um matsskylda framkvæmd er að ræða. 

Úrskurður 46/2016 Kröflulína 4 Skútustaðahreppur