Fréttir


  • Reykhólaraskforsida

19.3.2019

Vegna fréttar um Vestfjarðaveg

Vegna fréttar á vef RÚV 18. mars um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á tillögu Reykhólahrepps að aðalskipulagsbreytingu um Vestfjarðaveg telur Skipulagsstofnun ástæðu til að skýra eftirfarandi.

Skipulagsstofnun gaf umsögn til Reykhólahrepps um tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Vestfjarðavegar 11. mars sl. Stofnunin hefur það lögboðna hlutverk að yfirfara framsetningu og efni aðalskipulagstillagna sveitarfélaga áður en þær eru auglýstar til opinberrar kynningar fyrir almenningi. Tilgangur þess er að tryggja að framsetning skipulagstillagna sé skýr og að efni þeirra og framsetning sé í samræmi við fyrirmæli laga, reglugerða og stefnu stjórnvalda.

Í umsögn stofnunarinnar til Reykhólahrepps er bent á nokkur atriði sem bæta þarf í skipulagstillögunni. Þau varða helst umfjöllun um samræmi skipulagstillögunnar við náttúruverndarlög og stefnu stjórnvalda, umfjöllun í tillögunni um niðurstöður mats á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar frá árinu 2017 og upplýsingar um rannsóknir á náttúrufari sem unnar hafa verið eftir að mati á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar lauk. Einnig upplýsingar um áformaðar mótvægisaðgerðir vegna umhverfisáhrifa vegarins.

Í umsögninni er hinsvegar ekki gerð krafa um að færð séu frekari rök fyrir nauðsyn þess að leggja veginn eftir leið ÞH um Teigsskóg eins og segir í frétt RÚV, enda liggur fyrir í bókunum sveitarstjórnar við afgreiðslu málsins að fulltrúar í sveitarstjórn telja sér ekki fært að velja aðra leið.

Umsögn Skipulagsstofnunar