Uppbygging Kjalvegar í Bláskógabyggð
Mat á umhverfisáhrifum - Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu
Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að ofangreind framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000.
Vegagerðin áformar að byggja upp rúmlega 17 km kafla Kjalvegar sem liggur milli Árbúða og Kerlingarfjallavegar. Áætluð efnisþörf er rúmlega 170 þús m3 sem gert er ráð fyrir að taka úr skeringum og efnistökusvæðum meðfram veginum.
Kjalvegur er í heild tæplega 170 km langur. Kjalvegur er í grunninn mjór, og á köflum niðurgrafinn, vegslóði, en Vegagerðin hefur á undanförnum áratugum unnið að uppbyggingu hans í hlutum. Í dag hafa rúmlega 100 km verið uppbyggðir og þar af tæplega 19 km með bundnu slitlagi. Að undanskildum 3 km kafla sunnan Árbúða hefur uppbygging Kjalvegar ekki fengið viðeigandi málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fjallaði um málsmeðferð Kjalvegar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum í úrskurði árið 2016. Í úrskurðinum lagði nefndin áherslu á að almennt sé sá háttur að hluta niður framkvæmdir til þess fallinn að fara á svig við markmið laga um mat á umhverfisáhrifum og gerði athugasemdir við að við málsmeðferð áðurnefnds 3 km kafla hafi ekki jafnframt verið horft til umhverfisáhrifa áður uppbyggðra hluta vegarins og áforma um uppbyggingu hans á Bláfellshálsi.
Um leið og uppbygging Kjalvegar bætir samgöngur og aðgengi að áfangastöðum á Kili, eins og Kerlingarfjöllum og Hveravöllum, þá getur aukin umferð um svæðið leitt til aukins álags á viðkvæma náttúru, auk skerðingar á óbyggðum víðernum. Rík áhersla er lögð á varðveislu náttúru og víðerna miðhálendisins í landsskipulagsstefnu og jafnframt er, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, stefnt að stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Þá er áhersla á verndun óbyggðra víðerna meðal markmiða náttúruverndarlaga. Mikilvægt er að ákvarðanir um uppbyggingu vega á miðhálendinu byggi á heildstæðu mati á því hverskonar útfærsla og hönnun vega á best við til að tryggja í senn aðgengi fólks og varðveislu náttúru og víðerna.
Í ljósi framangreinds er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framlögð áform Vegagerðarinnar um uppbyggingu Kjalvegar á kaflanum milli Árbúða og Kerlingarfjallavegar kalli á mat á umhverfisáhrifum þar sem uppbygging Kjalvegar er skoðuð heildstætt og horft til ólíkra valkosta um útfærslu hans og hönnun. Sjá nánar í ákvörðun stofnunarinnar.
Hvað er ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar?
Fyrir tilteknar stærri framkvæmdir skal ávallt unnið mat á umhverfisáhrifum. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum eru einnig tilgreindar aðrar framkvæmdir sem eru tilkynningarskyldar. Fyrir þær er ákveðið í hverju tilviki hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati.
Í þeim tilvikum sem talið er að tilkynningarskyldar framkvæmdir geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skulu þær háðar mati á umhverfisáhrifum.
Ef ákveðið er að framkvæmd skuli háð umhverfismati er ekki hægt að veita leyfi fyrir framkvæmdinni fyrr en mati á umhverfisáhrifum er lokið.