Fréttir


13.6.2024

Kynningarfundur um stækkun hafnar í Straumsvík

Kynningarfundur 20. júní

Skipulagsstofnun vekur athygli á því að fimmtudaginn 20. júní munu Hafnarfjarðarbær og Hafnarfjarðarhöfn halda kynningarfund milli kl. 17:00 – 18:30 í samkomusal Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði vegna umhverfismats á stækkun hafnar í Straumsvík og skipulagsbreytinga vegna framkvæmdanna.

Hafnarfjarðarbær og Hafnarfjarðarhöfn áforma framkvæmdir á hafnarsvæðinu í Straumsvík og efnistöku úr Rauðamelsnámu. Í fyrsta áfanga er lagður varnargarður, gerð landfylling fyrir lóð Carbfix, byggður viðlegubakki fyrir gasskip tengd starfsemi Carbfix, lagður aðkomuvegur að hafnarsvæðinu og efnistaka úr Rauðamelsnámu í Hafnarfirði. Í áföngum 2 og 3 er fyrirhugað að stækka hafnarsvæðið frekar með landfyllingum, bæta við grjótvörn og byggja tvo viðlegukanta. Efnisþörf fyrir framkvæmdirnar eru allt að 2.060.000 m3. Sú efnistaka sem fer fram á landi mun fyrst og fremst eiga sér stað í Rauðamelsnámu í Hafnarfirði og þangað verða sótt allt að 1.340.000 m3.

Á fundinum verða jafnframt kynntar vinnslutillögur að skipulagsbreytingum fyrir stækkun hafnarinnar og efnistöku í Rauðamelsnámu.

Skipulagsstofnun hefur auglýst umhverfismatsskýrslu og allir geta kynnt sér skýrsluna og veitt umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 30. júní 2024 inn á Skipulagsgátt (www.skipulagsgatt.is).