Torgið er komið út
Fréttabréf Skipulagsstofnunar
Haustútgáfa Torgsins, fréttabréfs Skipulagsstofnunar, er komin út. Torgið er gefið út tvisvar á ári en þar má finna fréttir af áhugaverðum skipulagsverkefnum á Íslandi en jafnframt reynum við að miðla því til fagfólks og almennings sem efst er á baugi í starfi okkar hverju sinni.
Í haustútgáfunni 2022 er að finna forstjórapistil, í þetta sinn um hið breiða litróf málaflokka og fagþekkingar sem einkennir skipulagsmálin í dag. Fjallað er um Skipulagsdaginn, sem fram fór þann 17. nóvember síðastliðinn. Þar var sjónum beint að stafrænni vegferð í skipulagsmálum, fæðuöryggi, skipulagi í þéttbýli og orkuskiptum. Við kynnumst einnig nýju leiðbeiningarriti um skipulag í þéttbýli sem kemur út í byrjun ársins 2023 en það hefur fengið titilinn Mannlíf, byggð og bæjarrými. Að venju opnum við Skipulagsgluggann, þar sem vakin er athygli á skipulags- og hönnunarverkefnum sem fela í sér nýmæli og áhugaverðar lausnir. Að þessu sinni opnast glugginn í Önundarfirði þar sem nú rísa stúdentagarðar Flateyri, fyrstu nýbyggingar bæjarins í 27 ár. Að lokum skoðum við nýstárlegt bókmenntaverk um skipulag og byggingarlist, Jarðsetningu, eftir Önnu Maríu Bogadóttur.
Hægt er að gerast áskrifandi að Torginu hér. Jafnframt er hægt að segja upp áskrift að Torginu með því að senda tölvupóst á skipulag@skipulag.is