Svartárvirkjun í Bárðardal, Þingeyjarsveit
Mat á umhverfisáhrifum - álit Skipulagsstofnunar
Skipulagsstofnun hefur gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum Svartárvirkjunar í Bárðardal, Þingeyjarsveit. Álitið er aðgengilegt hér og matsskýrsla SSB Orku hér. Viðauka við matsskýrslu sem og umsagnir og athugasemdir við frummatsskýrslu má finna neðar á síðunni.
Um er að ræða áform um 9,8 MW virkjun. Gert er ráð fyrir að stífla Svartá um 500 m fyrir ofan ármót Svartár og Grjótár. Vatn verður leitt um aðrennslispípu um 3 km leið að stöðvarhúsi sem verður staðsett um 1,5 km ofan við ármót Svartár og Skjálfandafljóts. Virkjunin mun leiða til skerðingar á rennsli Svartár á um 3 km kafla á milli stíflu og frárennslisskurðar frá stöðvarhúsi.
Svartá og Suðurá eru lindár sem eiga uppruna í lindarvatninu Svartárvatni og lindum sem spretta fram í Suðurárbotnum í Ódáðahrauni. Árnar sameinast nokkru neðan Svartárvatns og bera heitið Svartá frá ármótum að Skjálfandafljóti. Vatnasvið Svartár og Suðurár hefur mikið verndargildi. Um er að ræða einar lífríkustu og vatnsmestu lindár landsins sem renna um blásin hraun í umhverfi þar sem inngrip mannsins eru lítil auk þess sem vatnasviðið er talið alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til að svæðið fari á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár vegna ferskvatnsvistgerðar og fugla.
Heildaráhrif
Áformuð Svartárvirkjun mun raska votlendi og jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar á grundvelli 61. gr. laga um náttúruvernd og sem ber að forðast að raska nema brýna nauðsyn beri til. Helstu áhrif framkvæmdarinnar felast þó í áhrifum á vatnafar og lífríki vatnsfalls með mikið verndargildi. Auk þess mun virkjunin raska sérstæðu landslagi sem má ætla að hafi mikið upplifunargildi.
Skipulagsstofnun telur að umhverfisáhrif virkjunar Svartár í heild verði verulega neikvæð. Stofnunin telur í því sambandi einnig mikilvægt að horfa til þess að um er ræða virkjun með undir 10 MW uppsett afl sem mun hafa í för með sér að mikil náttúruverðmæti raskast verulega. Áform um Svartárvirkjun kalla á breytingu á aðalskipulagi Þingeyjarsveitar, en ferli við aðalskipulagsbreytingu vegna virkjunarinnar hefur verið í biðstöðu á meðan umhverfismat framkvæmdarinnar fór fram. Skipulagsstofnun telur niðurstöður umhverfismatsins gefa tilefni til að endurskoða áform um að gera ráð fyrir Svartárvirkjun í aðalskipulagi Þingeyjarsveitar.
Vatnafar og vatnalíf
Lindár eru að mörgu leyti sérstakar hvað varðar eðlis- og efnaeiginleika sem og vatnafræðilega eiginleika og finnast óvíða annars staðar í heiminum en á Íslandi. Þéttleiki dýra í Svartá er meiri en í flestum lindám hér á landi og í ánni er að finna stórvaxinn urriða. Fyrirhuguð virkjun mun hafa í för með sér verulega skert rennsli á löngum kafla árinnar sem er líklegt til að leiða til breytinga á eiginleikum vatnsfallsins og neikvæðra áhrifa á fæðukeðjuna. Skert rennsli er líklegt til að draga úr lífrænni framleiðslu og framburði lífrænna efna og minnka búsvæði. Að mati Skipulagsstofnunar eru áhrif framkvæmdarinnar á vatnafar og vatnalíf líkleg til að verða verulega neikvæð.
Fuglar
Húsönd og straumönd eru einkennistegundir vatnasviðs Svartár og Suðurár. Ísland er einu heimkynni tegundanna í Evrópu og eru þær ábyrgðartegundir Íslands og á lista Bernarsamningsins yfir tegundir sem ber að vernda. Svæðið Svartá-Suðurá er á lista Náttúrufræðistofnunar Íslands yfir mikilvæg fuglasvæði með alþjóðlegt verndargildi þar sem fjöldi húsanda á svæðinu nær alþjóðlegum verndarviðmiðum. Þrátt fyrir að vatnasvið Svartár og Suðurár sé ekki víðfeðmt, má telja vatnasviðið mikilvægasta búsvæði húsandar og straumandar að vor- og sumarlagi utan Mývatns og Laxár. Auk áðurnefndra tegunda verpir nokkur fjöldi annarra fuglategunda á válista við Svartá.
Fyrirhuguð virkjun mun raska svæði sem er talið mikilvægt húsönd að vori en hátt hlutfall af húsandarstofni vatnasviðsins getur haldið til á svæðinu á þeim árstíma. Þá eru heimildir um að fjöldi húsanda hafi leitað inn á þetta svæði þegar æti hefur brugðist á Mývatns- og Laxársvæðinu.
Fyrirhuguð framkvæmd er líkleg til að rýra gæði svæðisins verulega fyrir húsönd en búsvæði húsandar eru afar takmörkuð og kann framkvæmdin að hafa áhrif á heildarstofn húsanda á Íslandi og þar af leiðandi í Evrópu. Að mati Skipulagsstofnunar eru fyrirhugaðar framkvæmdir líklegar til að hafa verulega neikvæð áhrif á fugla.
Landslag og ferðamennska
Upplifunargildi Svartár er mikið en áin flæðir meðfram grónum bökkum um fossa, gil og flúðir um landslag þar sem gróskumiklir árbakkar kallast á við hrjóstrugt heiða- og hraunlandslag. Svæðið ber jafnframt einkenni hefðbundins landbúnaðarlandslags á mörkum byggðar og óbyggða þar sem takmörkuð ummerki eru um inngrip mannsins. Tilkoma virkjunar mun breyta verulega upplifun af svæði næst virkjun og rýra gildi þeirrar sérstæðu landslagsheildar sem Svartá og Suðurá mynda. Samkvæmt verndarmarkmiðum náttúruverndarlaga skal stefnt að því að varðveita landslag sem er sérstætt eða fágætt eða sérlega verðmætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis. Skipulagsstofnun telur að landslag Svartár og Suðurár falli þar undir.
Samkvæmt skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála um áhrif Svartárvirkjunar á ferðaþjónustu og útivist er það náttúran og mannvistarlandslagið sem dregur fólk á svæðið, fólk sækist eftir því að upplifa ósnortna náttúru. Gildi Svartár sem veiðiár felist ekki eingöngu í sterkum urriðastofni heldur einnig náttúru svæðisins og þeirri upplifun að dvelja í ósnortnu umhverfi árinnar. Fyrirhuguð virkjun falli ekki að ímynd svæðisins og sé líkleg til að draga úr gildi þess fyrir náttúruferðamennsku og skerða möguleika til að þróa áfram náttúrutengda ferðaþjónustu á svæðinu.
Tengsl við rammaáætlun
Allir virkjunarkostir, 10 MW og stærri, sæta heildstæðri greiningu og mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Sú virkjun sem hér er til umfjöllunar, sem er áformuð 9,8 MW, sýnir veikleika þess að ákveðið uppsett afl segi alfarið til um það hvaða framkvæmdir skulu teknar fyrir í rammaáætlun. Hér er um að ræða virkjun undir þeim stærðarmörkum sem mun að mati Skipulagsstofnunar hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og tilefni hefði verið til að meta með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun, þar á meðal vegna samlegðaráhrifa með Hrafnabjargavirkjun sem er lagt til að falli í verndarflokk samkvæmt tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun, en er í biðflokki samkvæmt gildandi rammaáætlun.
Álit, matsskýrsla og viðaukar:
Athugasemdir við frummatsskýrslu
Svör framkvæmdaraðila við umsögnum
Svör framkvæmdaraðila við athugasemdum