Fréttir


  • Valkostir

24.4.2020

Suðurnesjalína 2

Mat á umhverfisáhrifum - álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun hefur gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2. Álitið, ásamt matsskýrslu Landsnets, er aðgengilegt hér.

Landsnet áformar að leggja Suðurnesjalínu 2 sem verður um 32-34 km löng 220 kV háspennulína á milli tengivirkis við Hamranes í Hafnarfirði og tengivirkis við Rauðamel í Grindavíkurbæ.

Í matsskýrslunni er lagt mat á umhverfisáhrif sex valkosta um legu og útfærslu línunnar, sem í grófum dráttum eru:

  • Valkostur A. Jarðstrengur meðfram Suðurnesjalínu 1.
  • Valkostur B. Jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut.
  • Valkostur C. Loftlína meðfram Suðurnesjalínu 1, en víkur frá henni og sveigir til suðurs innan sveitarfélagsmarka Hafnarfjarðar.
  • Valkostur C2. Loftlína meðfram Suðurnesjalínu 1, sem fylgir henni inn í Hafnarfjörð.
  • Valkostur D. Felst í að loftlína samkvæmt legu C/C2 er lögð í jörð á 7 km kafla þar sem línan liggur næst Reykjanesbraut.
  • Valkostur E. Felst í að loftlína samkvæmt legu C/C2 er á sameiginlegum möstrum með Suðurnesjalínu 1 á 7 km kafla þar sem línan liggur næst Reykjanesbraut.

Fyrsta val Landsnets er kostur C.

Fyrir liggur að þörf er á að styrkja raforkukerfið á Suðurnesjum og að allir þeir valkostir sem fjallað er um í matsskýrslu Landsnets eru taldir raunhæfir í því tilliti.

Um er að ræða áform um umfangsmikil mannvirki yfir langan veg, þar sem landslag er opið og víðsýnt og þar sem náttúrufar nýtur verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Þar að auki hefur Reykjanes hlotið alþjóðlega viðurkenningu UNESCO vegna jarðfræðilegrar sérstöðu. Línan fer nærri einum fjölfarnasta þjóðvegi landsins, sem jafnframt er gátt erlendra ferðamanna inn í landið um Keflavíkurflugvöll. Þá fer hún um og nærri náttúrusvæðum sem eru vinsæl útivistarsvæði í grennd við höfuðborgarsvæðið og byggð á Suðurnesjum. Einnig liggur hún nærri vaxandi þéttbýli á nokkrum stöðum á línuleiðinni og fer um svæði í Hvassahrauni þar sem stjórnvöld hafa til skoðunar að byggja upp flugvöll.

Eitt af markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda. Skipulagsstofnun telur umhverfismat Suðurnesjalínu 2 hafa leitt í ljós að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að vinna að því markmiði, og þá sé æskilegasti kosturinn valkostur B meðfram Reykjanesbraut. Ávinningur af því, með tilliti til umhverfisáhrifa samanborið við loftlínuvalkosti, felst í minni neikvæðum áhrifum á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður og fuglalíf. Fyrsta val Landsnets, lagning loftlínu samkvæmt valkosti C, hefur neikvæðustu áhrif allra skoðaðra valkosta á framangreinda þætti. Jafnframt getur verið ávinningur af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut, fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1, með tilliti til náttúruvár. Þá telur Skipulagsstofnun jarðstreng vænlegri kost en loftlínu þegar litið er til áhrifa á landnotkun og framtíðarþróunar byggða- og atvinnumála á Suðurnesjum, svo sem stækkandi þéttbýlisstaða og mögulegs flugvallar í Hvassahrauni.

Í þingsályktun nr. 11/144 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína eru sett fram viðmið sem réttlæta að dýrari kostur sé valinn og línur í flutningskerfi raforku lagðar í jarðstreng í heild eða hluta. Þessi viðmið eru að línuleið sé við flugvöll eða innan þéttbýlis, friðlands eða þjóðgarðs. Þótt þessi skilyrði eigi í dag strangt til tekið ekki við á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 nema að takmörkuðu leyti, eru þetta þó allt atriði sem Skipulagsstofnun telur að vegi þungt við ákvörðun um legu og útfærslu Suðurnesjalínu 2. Raflínan er fyrirhuguð í næsta nágrennis þéttbýlis í Hafnarfirði og vaxandi þéttbýlis í Vogum. Hún er fyrirhuguð um svæði þar sem stjórnvöld hafa til athugunar að byggja upp nýjan flugvöll. Og hún fer um svæði sem nýtur verndar vegna náttúrufars, þótt ekki sé um formlega skilgreiningu svæðisins sem friðlands eða þjóðgarðs að ræða.

Skipulagsstofnun tekur undir með Landsneti, að mikilvægt sé að nálgast heildstætt ákvarðanir um það hvar nýta eigi það takmarkaða svigrúm sem er vegna tæknilegra forsendna til að leggja jarðstrengi í flutningskerfi raforku hér á landi. Á þessu stigi liggja hinsvegar ekki fyrir önnur ákveðin áform um lagningu raflína sem hægt er taka mið af við ákvörðun um Suðurnesjalínu 2. Þá telur stofnunin að taka þurfi tillit til þess að stjórnvöld hafa til athugunar að byggja flugvöll í Hvassahrauni. Það gefur augaleið að halda þarf svigrúmi til að leggja Suðurnesjalínur 1 og 2 í jörð á og nærri flugvallarsvæðinu, komi til uppbyggingar hans. Þeim hluta „jarðstrengjakvótans“ verður því að mati stofnunarinnar ekki ráðstafað annarsstaðar, fyrr en þá að niðurstaða er fengin um að fallið sé frá flugvallaráformum í Hvassahrauni.

Það er í höndum hlutaðeigandi sveitarfélaga (Hafnarfjarðarbæjar, Sveitarfélagsins Voga, Reykjanesbæjar og Grindavíkurbæjar) að taka afstöðu til þess hvaða valkostur verður endanlega fyrir valinu. Þær ákvarðanir þurfa sveitarfélögin að taka sameiginlega, þar sem þær ákvarðanir eru háðar hver annarri. Í umhverfismatsferlinu hefur komið fram að bæjarstjórn Reykjanesbæjar mælir með jarðstrengsvalkostum og að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga leggur einnig áherslu á jarðstrengsvalkosti.