Stafræn þróun rædd á Skipulags- og umhverfismatsdegi
Stafrænar lausnir og nýjungar við samráð voru til umfjöllunar á Skipulags- og umhverfismatsdeginum sem haldinn var 13. nóvember sl. undir yfirskriftinni Rými fyrir mannlíf og samtal. Síðari hluti ráðstefnunnar var helgaður þessu viðfangsefni og voru fjölbreytt erindi á dagskrá sem fjölluðu um nýjar aðferðir og lausnir við kynningu og samráð, þar á meðal stafrænar lausnir og tækninýjungar.
Stafræn skipulagsgerð innleidd
Meðal frummælanda var Ólafur Árnason, forstöðumaður nýsköpunar og þróunar hjá Skipulagsstofnun, sem fjallað í erindi sínu um innleiðingu stafræns skipulags og áform um nýja upplýsinga- og samráðsgátt um skipulag og umhverfismat. Hann sagði frá innleiðingu stafrænnar skipulagsgerðar, en samkvæmt skipulagslögum er stefnt að því að allt skipulag verði í framtíðinni unnið með samræmdum hætti í landfræðilegum upplýsingakerfum. Gert er ráð fyrir að aðalskipulagi verði skilað með þeim hætti til Skipulagsstofnunar frá árinu 2020 og deiliskipulagi árið 2025. Ólafur fjallaði um ávinninginn sem hlýst af þessari mikilvægu breytingu þegar hún kemst til framkvæmda í öllum sveitarfélögum. Til verður gagnagrunnur með samræmdum skipulagsgögnum sem mun gefa yfirlit yfir stöðu og ákvæði skipulags fyrir landið allt. Ólafur lagði áherslu á möguleikana sem þetta felur í sér, meðal annars varðandi greiningar og tölfræði um landnýtingu auk þess sem gott aðgengi verði tryggt að upplýsingum um réttindi og skyldur á mismunandi svæðum. Fram kom í máli Ólafs að leiðbeiningar til sveitarfélaga og skipulagsráðgjafa um gerð stafræns aðalskipulags eru í lokavinnslu, sem og fitjuskrá sem unnið hefur verið að í samstarfi við sveitarfélög og skipulagsráðgjafa.
Ný upplýsinga- og samráðsgátt um skipulag og umhverfismat
Ólafur vék einnig að undirbúningi nýrrar stafrænnar upplýsinga- og samráðsgáttar um skipulag og umhverfismat, en í frumvarpi sem nú er til meðferðar á Alþingi um breytingu á skipulagslögum er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun setji upp og reki slíka gátt. Í henni er stefnt að því að birta gögn um skipulagsmál, umhverfismat og leyfisveitingar jafnóðum og þau verða til, auk umsagna og athugasemda sem berast við kynningu framangreindra gagna. Almenningur og umsagnaraðilar eiga að geta veitt umsagnir í gáttinni og skulu allir hafa endurgjaldslausan aðgang að henni. Ólafur sagði lykilatriði að gáttin nýti möguleika landfræðilegra upplýsingakerfa og að hún verði tengd landfræðilegri vefsjá.
Ólafur sagði að gera megi ráð fyrir að 9 til 12 mánuði taki að ljúka gerð gáttarinnar eftir að verkefnið hefst. Um væri að ræða samvinnuverkefni margra aðila og mikilvægt að horfa til framtíðarnýtingar við þróun gáttarinnar. „Þetta mun auðvelda aðgengi að gögnum og ákvörðunum og auka gagnsæi ferla sem veita okkur meiri yfirsýn yfir þróun og greiningargetu. Síðast en ekki síst þetta er skref í átt að aukinni skilvirkni,“ sagði Ólafur.
Fjölbreytt sjónarhorn
Aðrir sem tóku þátt í síðari hluta dagskrár Skipulags- og umhverfismatsdagsins voru Bergur Ebbi, sem auk þess að vera fundarstjóri flutti erindi sem hann kallaði Borg í ský, en í því fjallaði hann á líflegan hátt um yfirstandandi samfélags- og tæknibreytingar og tengsl þeirra við skipulagsmál. Guðmundur Kristján Jónsson, skipulagsfræðingur hjá Planitor, fjallaði um hvernig mætti auka gegnsæi og skilvirka upplýsingamiðlun um skipulagsmál og mannvirkjagerð. Hrafnkell Proppé hjá Verkefnastofu Borgarlínu gerði grein fyrir fjölbreyttum aðferðum sem nýttar hafa verið við kynningu Borgarlínu og Elín S. Ólafsdóttir hjá Landsneti talaði um nýjar samráðsleiðir við undirbúning raflínuframkvæmda. Ester Anna Ármannsdóttir hjá Skipulagsstofnun sagði frá samráði við gerð strandsvæðisskipulags, meðal annars kortavefsjá sem nýtt hefur verið til að afla upplýsinga frá almenningi um hvernig íbúar og hagsmunaaðilar nýta tiltekin strandsvæði. Þá fjallaði Róbert Ragnarsson hjá RR ráðgjöf um stafrænt samráð og snarteikningar og um hvernig slíkar aðferðir hafa nýst í umræðum um sameiningu sveitarfélaga. Síðastur á mælendaskrá var Guðjón Bragason hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem fjallaði um sýn og viðfangsefni sambandsins í skipulagsmálum og rakti það sem framundan er í málaflokknum.
Glærur og upptökur frá deginum má nálgast hér.