Fréttir


26.6.2018

Staðfesting á breytingu á aðalskipulagi Árneshrepps, undirbúningsframkvæmdir Hvalárvirkjunar

Skipulagsstofnun hefur þann 25. júní 2018 staðfest breytingu á Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025 sem samþykkt var í sveitarstjórn 30. janúar 2018. Málsmeðferð var samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga.

Viðfangsefni aðalskipulagsbreytingarinnar er útfærsla undirbúningsframkvæmda vegna Hvalárvirkjunar. Virkjunin er fyrir áformuð í gildandi aðalskipulagi Árneshrepps. Breytingin miðar að því að unnt sé að framkvæma nauðsynlegar rannsóknir vegna hönnunar virkjunarinnar, þ.e. könnun á lausum jarðlögum, bergi og undirstöðum fyrir stíflur, dýptarmælingar á vötnum og ýmsar umhverfisrannsóknir, svo sem fornleifaskráning. Breytingin felur í sér eftirfarandi:

  • Iðnaðarsvæði I3 sem samkvæmt gildandi aðalskipulagi er ætlað fyrir stöðvarhús og    aðstöðuhús virkjunar færist sunnar og og þar er gert ráð fyrir tímabundnum starfsmannabúðum fyrir allt að 30 manns.
  • Íbúðarsvæði ÍS1 við Hvalá er fellt niður.
  • Bætt er við þremur efnistökusvæðum; við Hvalárósa, í Hvalá og við Hvalárvatn (ES18-ES20). Samtals er heimilt að taka 88.000 m3 af efni á svæðunum. 
  • Útfærðir eru vinnuvegir frá Ófeigsfjarðarvegi sunnan Hvalár að Neðra Hvalárvatni og þaðan að Neðra Eyvindarfjarðarvatni annars vegar og að Rjúkanda hins vegar, samtals 25 km. Um 600 m ofan við Hvalárfoss er gert ráð fyrir brú yfir Hvalá.

Í aðalskipulagsbreytingunni eru sett ákvæði um að halda vegaframkvæmdum í algjöru lágmarki og að vegagerð verði sleppt þar sem það er mögulegt. Sett eru ákvæði um að vinnuvegir skerði ekki vistgerðir eða jarðminjar sem njóta verndar samkvæmt 61. gr. laga um náttúruvernd, eða vistgerðir með hátt eða mjög hátt verndargildi. Lagning vinnuvega á svæðum þar sem ekki hafa verið skráðar eða mældar fornminjar verði undir eftirliti fornleifafræðings. Ef fallið verður frá virkjanaáformum skulu vegir og brú fjarlægð og ummerki fjarlægð eins og kostur er. Einnig eru sett ákvæði um vinnulag við efnistöku og frágang efnistökusvæða og að efnistökusvæði ES20 við Hvalá verði aðeins nýtt ef ekki fæst nægilegt efni úr efnistökusvæði við Hvalárósa. Að framkvæmdum loknum skulu starfsmannabúðir fjarlægðar og gengið frá svæði I3 þannig að það verði sem líkast því sem var fyrir framkvæmdir. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á Ófeigsfjarðarvegi.

Samhliða aðalskipulagsbreytingunni var unnin og kynnt tillaga að deiliskipulagi vegna undirbúningsframkvæmdanna. Áður en sveitarstjórn veitir leyfi fyrir framkvæmdunum þarf að ljúka afgreiðslu deiliskipulagsins.  

Hægt verður að nálgast aðalskipulagsbreytinguna á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar þegar breytingin hefur öðlast gildi.

Afgreiðslubréf Skipulagsstofnunar dags. 26. júní 2018