Staðfesting á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna Vestfjarðavegar
Skipulagsstofnun staðfesti þann 22. nóvember 2019 breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Skálaness. Breytingin felur í sér nýja legu Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi að Skálanesi um Teigsskóg og nánari útfærslu á þverunum yfir Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð auk efnistökusvæða vegna lagningar vegarins. Um er að ræða veglínu sem er kölluð Þ-H leið. Einnig er gert ráð fyrir nýjum tæplega 6 km vegi að Djúpadal. Sett eru skipulagsákvæði um hönnun vega, framkvæmd vegagerðar og frágang mannvirkja auk þess sem tilgreindar eru aðgerðir til að draga úr neikvæðum áhrifum á birkiskóg, votlendi, leirur og fornleifar.
Málsmeðferð aðalskipulagsbreytingarinnar var samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin verður aðgengileg á skipulagsvefsjá þegar hún hefur öðlast gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.
Aðalskipulagsbreytingin á sér nokkuð langan aðdraganda. Stefna um uppbyggingu Vestfjarðavegar í Reykhólahreppi er sett fram í aðalskipulagi sveitarfélagsins sem staðfest var árið 2009. Um var að ræða legu Vestfjarðavegar frá Bjarkalundi að Vattarnesi og hefur kaflinn frá Skálanesi að Vattarnesi verið lagður í samræmi við hana.
Umhverfismat Vestfjarðavegar 2003-2006 og 2014-2017
Árið 2006 úrskurðaði Skipulagsstofnun um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Eyrar og var fallist á framkvæmdina með skilyrðum að öðru leyti en því að lagst var gegn valkostum B og C frá Þórisstöðum að Kraká ásamt tilheyrandi efnistöku í Teigsskógi, á Hallsteinsnesi og Gróunesi vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa. Úrskurðurinn var kærður til umhverfisráðherra og síðar skotið til dómstóla. Árið 2009 staðfesti Hæstiréttur að óheimilt væri að leggja veginn samkvæmt leið B um Teigsskóg vegna umhverfisáhrifa. Á grundvelli þessa umhverfismats var veitt leyfi fyrir vegkaflanum frá Skálanesi að Eyri og hefur sá kafli vegarins verið lagður.
Í lok árs 2014 óskaði Vegagerðin, sem framkvæmdaraðili vegarins, eftir því við Skipulagsstofnun að heimilað yrði að endurskoða umhverfismat vegar um Teigsskóg. Í maí 2015 féllst Skipulagsstofnun á beiðni Vegagerðarinnar, að lokinni kynningu á erindinu og álitsumleitan.
Nýtt umhverfismatsferli hófst síðan haustið 2015 og stóð fram í mars 2017. Í febrúar 2017 lagði Vegagerðin fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í matsskýrslu Vegagerðarinnar voru kynntir fimm kostir á lagningu Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Skálaness um Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð, sem eru nefndar leiðir A1, D2, H1, I og Þ-H. Samkvæmt matsskýrslunni uppfylltu allar skoðaðar leiðir umferðaröryggiskröfur og voru taldar hafa veruleg jákvæð áhrif á samgöngur og umferðaröryggi en markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur um Vestfjarðaveg, tryggja öryggi og stytta vegalengdir. Vegagerðin lagði til að nýr vegur yrði lagður samkvæmt leið Þ-H.
Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir í mars 2017. Meginniðurstaða þess er eftirfarandi:
Á því landsvæði sem framkvæmdin er fyrirhuguð gilda margvísleg verndarákvæði sem taka að einhverju marki til allra þeirra fimm veglína sem matsskýrsla Vegagerðarinnar fjallar um. Votlendi, leirur og sjávarfitjar ásamt sérstæðum eða vistfræðilega mikilvægum birkiskógum njóta verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga. Þá er hluti áformaðs framkvæmdasvæðis innan svæðis á náttúruminjaskrá. Einnig er nokkur fjöldi fornleifa sem njóta verndar samkvæmt lögum um menningarminjar á eða nærri framkvæmdasvæði allra veglína. Jafnframt er arnarvarp og æðarvarp nærri framkvæmdasvæðinu sem nýtur verndar samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þá eru búsvæði fleiri verndaðra fugla- og gróðurtegunda á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Einnig er sérstök áhersla á verndun landslags í lögum um náttúruvernd og í lögum um vernd Breiðafjarðar.
Hafandi í huga markmið laga um mat á umhverfisáhrifum, sem er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda, og að teknu tilliti til þess að allar þær fimm veglínur sem lagðar eru fram í matsskýrslu Vegagerðarinnar uppfylla umferðaröryggiskröfur og markmið um styttingu, telur Skipulagsstofnun að velja beri þá leið sem hefur í för með sér minnst neikvæð umhverfisáhrif. Gildir það sérstaklega gagnvart raski á þeim vistkerfum og jarðminjum sem njóta verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga, en samkvæmt náttúruverndarlögum ber að forðast að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til. Við mat á því hvenær það getur átt við skal horfa til verndarmarkmiða náttúruverndarlaga, mikilvægis minja og sérstöðu þeirra í íslensku og alþjóðlegu samhengi og varúðarreglu umhverfisréttar.
Allar framlagðar veglínur hafa neikvæð áhrif á náttúruminjar sem njóta verndar samkvæmt lögum. Jafnframt liggur fyrir að nauðsyn er talin á að bæta samgöngur um svæðið og að endurbygging núverandi vegar er ekki talinn vera raunhæfur valkostur. Að mati Skipulagsstofnunar er leið D2 sá kostur sem uppfyllir best markmið laga nr. 106/2000 um að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda.
Út frá þekktum áhrifum á birkiskóglendi, votlendi, leirur og sjávarfitjar, tegundir sem njóta verndar, menningarminjar og landslag er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að leiðir A1, I og Þ-H séu að öllu samanlögðu líklegar til að hafa í för með sér talsverð til veruleg neikvæð umhverfisáhrif sem ekki sé hægt nema að takmörkuðu leyti að fyrirbyggja eða draga úr með mótvægisaðgerðum.
Að mati stofnunarinnar er óvissa um áhrif þverana fjarðanna á eðlisþætti sjávar og lífríki fjöru og grunnsævis sem ekki verður eytt nema með frekari rannsóknum.
Breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps
Reykhólahreppur hóf ferli við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Vestfjarðavegar haustið 2017. Í byrjun ferlisins var gengið út frá því að fjalla um tvo kosti um nýja veglínu ásamt tilheyrandi efnistökusvæðum, þ.e. leið Þ-H (Teigsskógarleiðina) og leið D2 um jarðgöng undir Hjallaháls.
Síðar í skipulagsferlinu, eða vorið 2018, ákvað sveitarstjórn Reykhólahrepps að fela Multiconsult að vinna óháða úttekt á leiðum fyrir Vestfjarðaveg sem fæli í sér raunhæfan samanburð á kostum um legu vegarins og hlutfallslegan kostnað vegkosta, sem og skoðun veglínu fram hjá þorpinu á Reykhólum.
Unnið var að ítarlegum úttektum á framangreindu fram á árið 2019 með það fyrir augum að finna valkost sem sátt yrði um. Multiconsult kynnti í júní 2018 tillögu að leið R, framhjá Reykhólum og með langri brú yfir Þorskafjörð. Að ósk Reykhólahrepps tók Vegagerðin skýrslu Multiconsult til athugunar og lagði fram í október 2018, frumathugun á legu vegar um Reykhóla sem Vegagerðin kallaði leið A3, og bar þá útfærslu saman við leiðir Þ-H og D2. Vegagerðin taldi brú samkvæmt leið R verða dýrari en reiknað var með í skýrslu Muliticonsult og taldi jafnframt ólíkt Multiconsult, að byggja þyrfti upp Reykhólasveitarveg ef leið R yrði fyrir valinu.
Að beiðni Reykhólahrepps veitti Multiconsult umsögn um framangreinda athugun Vegargerðarinnar í nóvember 2018. Vegna ósamræmis á milli niðurstaðna Vegagerðarinnar og Multiconsult ákvað Reykhólahreppur að fá Viaplan til að vinna frekari valkostagreiningu og lá sú skýrsla fyrir í árslok 2018 þar sem niðurstaðan studdi álit Multiconsult um að Reykhólaleið R væri vænlegasti leiðarvalkosturinn á heildina litið.
Vegagerðin lagði fram í janúar 2019 frumdrög að umferðaröryggismati á fjórum veglínum, Þ-H, D2, R og A3 þar sem niðurstaðan var sú að leið R komi óhagstæðar út með tilliti til umferðaröryggis en hinir valkostirnir.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti í kjölfarið eða í febrúar 2019, að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi með leið Þ-H. Aðalskipulagstillagan var auglýst sumarið 2019 og bárust 45 athugasemdir og umsagnir á kynningartímanum. Í athugasemdum og umsögnum er leið Þ-H mótmælt vegna ósamræmis við ákvæði laga um náttúruvernd, óafturkræfs rasks á lífríki og Teigsskógi og vegna byggðarsjónarmiða og bent á að velja frekar jarðgangaleið D2 eða R-leið fram hjá Reykhólum. Einnig er lýst stuðningi við aðalskipulagstillöguna sem feli í sér brýna samgöngubót fyrir íbúa og fyrirtæki á Vestfjörðum.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur farið yfir og brugðist við þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust á kynningartíma skipulagstillögunnar og samþykkti í október 2019, aðalskipulagsbreytinguna með legu Vestfjarðavegar samkvæmt leið Þ-H og afgreiddi hana til staðfestingar Skipulagsstofnunar.
Í bókunum við afgreiðslu sveitarstjórnar á aðalskipulagsbreytingunni er vikið að hlutverki sveitarfélagsins og undirbúningi fyrir ákvörðun aðalskipulagsbreytingarinnar. Þar kemur fram að í samræmi við lög um náttúruvernd hafi sveitarstjórn leitað allra leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið og skoðað aðra valkosti en tillögu um leið Þ-H til að koma í veg fyrir áhrif á Teigsskóg og leirur. Ennfremur segir að sveitarstjórn hafi leitað leiða til að draga úr kostnaði við jarðgangagerð samkvæmt leið D2 og skoðað nýja valkosti, R og A3. Það sé niðurstaða sveitarstjórnar að ef bæta eigi samgöngur og umferðaröryggi í Reykhólahreppi sem fyrst, sé Þ-H eina færa leiðin. Í bókuninni er fjallað um umferðaröryggi, kostnað við mismunandi leiðir, valkostagreiningu og mótvægisaðgerðir. Fram kemur að þótt gripið verði til mótvægisaðgerða verði ekki unnt að bæta fyrir sjávarfitjar, sérstæðan birkigróður eða votlendi sem njóti verndar en þó séu settir skilmálar um endurheimt á gróðurlendum, votlendi og birkiskógi og gerð krafa um tilraunir til að endurheimta leirur.