Fréttir


  • Forsíða skýrslu

11.12.2017

Skýrsla um rannsókn á víðernum á miðhálendinu

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði hefur tekið saman skýrslu um mat á umfangi víðerna á miðhálendinu. Skýrslan ber heitið „Kortlagning víðerna á miðhálendi Íslands: Tillögur að nýrri aðferðafræði“. Höfundar hennar eru Þorvarður Árnason, David Ostman og Adam Hoffritz. Rannsóknarverkefnið var unnið að beiðni Skipulagsstofnunar og verkefnisstjórnar rammaáætlunar en því var ætlað að skapa faglegan grunn fyrir greiningu víðerna með tilliti til skipulagsgerðar.

Verkefnið fólst meðal annars í að þróa aðferðir til að kortleggja staðsetningu, stærð og mörk víðerna. Útbúinn var gagnagrunnur þar sem öll mannvirki á miðhálendinu voru hnitsett og greind. Mannvirkjunum var raðað í flokka með tilliti til einkenna þeirra (svo sem stærðar, sýnileika og tilgangs) og hverjum flokki síðan gefinn áhrifastuðull, þ.e. um áhrif til skerðingar á víðernum, sem getur verið breytilegur á milli flokka. Gagnagrunnurinn var útbúinn með kerfisbundnum, gegnsæjum hætti og mismunandi útfærslur á áhrifastuðlum prófaðar.

Niðurstöður skýrslunnar verða meðal annars nýttar við vinnslu framfylgdarverkefnis landsskipulagsstefnu 2015-2026 um kortlagningu víðerna, en í því verkefni er Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun falið að hafa forgöngu um að reglulega liggi fyrir uppfært kort af umfangi og þróun víðerna á miðhálendinu. Í því felst að ákveða viðmið fyrir mat á umfangi víðerna út frá skipulagssjónarmiðum og að hafa kort yfir umfang víðerna aðgengileg fyrir skipulagsvinnu sveitarfélaga og annarra aðila.

Kortlagning víðerna á miðhálendi Íslands: Tillögur að nýrri aðferðafræði