Fréttir


1.2.2024

Skipulagsgátt tilnefnd til UT-verðlauna

Skipulagsgátt hefur verið tilnefnd til upplýsingatækniverðlaunanna í flokknum „Stafræna opinbera þjónustan 2023“, og er meðal tveggja annarra tilnefninga í þessum flokki. Það er Ský, félag fyrir fólk og fyrirtæki í upplýsingatækni, sem veitir UT-verðlaunin en á hverju ári er valið úr fjölda tilnefninga sem er síðan raðað í fimm mismunandi flokka. Verðlaunaafhending fer fram 2. febrúar næstkomandi í UTmessunni sem haldin er í Hörpu og mun forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenda verðlaunin.

Í umsögn um Skipulagsgátt segir:

„Skipulagsgátt markar tímamót í skipulagsmálum á Íslandi. Með gáttinni er í fyrsta sinn aðgengileg á einum stað öll skipulagsmál, umhverfismatsverkefni og framkvæmdaleyfi sem eru í kynningu hverju sinni, hvar sem er á landinu. Lausnin er aðgengileg og skiljanleg jafnt leikmönnum sem fagfólki. Skipulagsgátt stórbætir aðgengi og einfaldar almenningi og hagsmunaaðilum þátttöku í skipulagsmálum. Flóknir ferlar eru færðir á mannamál og nútímalegt, grafískt yfirlit yfir stöðu mála. Leit á korti eða leitarvél er einföld og aðgengileg. Lausnin er þegar komin í mikla notkun.“

Hér er hægt að skoða Skipulagsgátt