Fréttir


  • Vefmyndir-5320

6.12.2021

Skipulag, stríð og kliður

„Skipulagsfræðingar eiga að vera ljóðskáld.“

Sverrir Norland, rithöfundur, flutti hugvekju í byrjun dagskrár á Skipulagsdeginum 12. nóvember síðastliðinn. Þar setti hann tóninn fyrir frjóar og skemmtilegar umræður dagsins. Sverrir sendi frá sér bókina Stríð og kliður í byrjun árs og gerði grein fyrir ýmsum hugleiðingum sem þar koma fram í erindi sínu. Gefum Sverri orðið.

Í fyrirlestri mínum talaði ég út frá nýjustu bók minni sem heitir Stríð og kliður: Hvað verður um ímyndunaraflið? Þar lýsi ég því hvernig ég lenti í „sköpunarkrísu“ fyrir nokkrum árum – mér fannst ég ekki geta verið rithöfundur lengur í veröld sem mér fannst ekki ganga út á fagnaðarerindi lista og gjafmildrar sköpunargleði heldur tortímingu og þankalausa græðgi – „stríð“ okkar gegn lífkerfi jarðar.

Vefmyndir-5313

Í Stríði og klið rek ég hvernig ég vann mig út úr þessari krísu og endurvakti til dæmis trú mína á gildi sagnalistarinnar í aðlögunarferli okkar að loftslagsbreytingunum. Við þurfum sögur til að skilja, elska og meta heiminn – og sjá fyrir okkur bjarta framtíð.

Stríð og kliður er ein slík saga. Mig langaði að segja sögu af sjónarhóli venjulegs náunga af minni kynslóð sem er að glíma við þessar spurningar – „tegundarskömm“, eins og ég kalla það í bókinni. Ég hugsa að margir hafi upplifað svipaðar tilfinningar á síðustu árum.

Spurningin var: Hver er tilgangur mannlífsins í heimi þar sem yfir stendur útrýming á stórum hluta lífs jarðar, „sjötta útrýmingin“?

Í Stríði og klið velti ég því fyrir mér hvort minnkandi fjölbreytni í lífkerfi jarðar kunni að leiða til dvínandi hugarflugs – og þverrandi vitsmunagreindar – hjá okkur mönnunum. (Tækniáreitið, „kliðurinn“, hjálpar þar ekki endilega til.) Við þurfum ríkan og fjölbreyttan heim ekki aðeins upp á punt heldur hreinlega vegna þess að við döfnum best í slíku umhverfi. Hugsanir okkar verða fjölbreyttar og líflegar í fjölbreyttum og lifandi heimi.

Sverrir telur skipulagsmál geta skipt lykilmáli til að virkja hugmyndaflugið á ný, til dæmis í vel skipulögðum borgum sem hvetja til iðandi mannlífs.

Þetta þarf að hafa í huga við alla borgarskipulagningu – við viljum margslungnar og kraftmiklar borgir sem hvetja okkur til samskipta, skapandi iðju, útiveru, hreyfingar og minna okkur stöðugt á hvernig allt er samofið, nátengt, og að lífið er heilagt, hefur merkingu. Hagfræðingar þurfa að vera líffræðingar. Skipulagsfræðingar eiga að vera ljóðskáld. Við þurfum að hleypa náttúrunni aftur inn í borgirnar okkar og við verðum að hafa áhuga, og skilning, á allri jörðinni. Við þurfum að vera, og megum vera, fjölfræðingar, ekki sérfræðingar.

Svo held ég líka að það sé allri heimsbyggðinni gott að hugsa eins og listamenn. Við erum það öll, að einhverju leyti. Listamenn horfa svo grannt á umhverfi sitt, þess vegna eru þeir næmir fyrir breytingunum sem eru að verða á jörðinni. Umhverfi okkar er ímyndunarafl okkar. Við erum það sem við sjáum, heyrum, þefum, snertum.

Falleg borg, þar sem fólki líður vel, er því ekki munaður heldur praktísk nauðsyn. Það hefur sýnt sig að fólk er hamingjusamara í fallegu og mannvænlegu umhverfi – sem svo aftur sparar formúur í heilbrigðiskerfinu, svo að dæmi sé tekið.

Í heilbrigðri borg býr heilbrigt fólk – og á heilbrigðri jörð býr heilbrigt fólk. Höfum það að leiðarljósi við skipulagningu samfélaga framtíðarinnar.

Vefmyndir-5374