Fréttir


  • 3544

10.9.2021

Nýtt starfsfólk hjá Skipulagsstofnun

Nokkrar mannabreytingar hafa orðið hjá Skipulagsstofnun nú í lok sumars. Stofnunin hefur bætt við sig góðum hópi fólks en kveður starfsmenn sem hætta fyrir aldurs sakir eða vegna flutnings til annarra starfa. Skipulagsstofnun býður nýtt starfsfólk hjartanlega velkomið og óskar um leið fráfarandi félögum alls hins besta í komandi verkefnum og þakkar kærlega fyrir vel unnin störf. Sjö nýir starfsmenn hafa nú þegar hafið störf og bætist sá áttundi við næstkomandi áramót.

Albert Þorbergsson hefur hafið störf sem sérfræðingur í teymi landupplýsinga. Albert starfaði áður hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR), einkum við jarðfræðikortagerð, og þar áður lengi við uppbyggingu gagnagrunna Landupplýsingakerfis Reykjavíkur (LUKR) á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Berglind Sigurðardóttir er nýr sérfræðingur á sviði deiliskipulags. Berglind hefur lokið meistaragráðu í skipulagsfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands en áður starfaði hún meðal annars á Eflu - verkfræðistofu og umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Björn Teitsson hefur tekið við starfi verkefnastjóra kynningarmála á sviði stefnumótunar og miðlunar. Björn er um þessar mundir að ljúka meistaragráðu í evrópskum borgarfræðum frá Bauhaus-háskólanum í Weimar í Þýskalandi. Áður hefur hann starfað við kynningarmál hjá Krabbameinsfélaginu og Rauða krossinum.

Esther Björg Andreasen hefur hafið störf á sviði aðalskipulags. Esther er að ljúka meistaragráðu í skipulagsfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Gréta Hlín Sveinsdóttir er nýr teymisstjóri landupplýsinga. Gréta hefur lokið meistaragráðu í landupplýsingatækni frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Gréta starfaði áður sem fagsviðsstjóri hjá Eflu - verkfræðistofu og sem sérfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf.

Hrafnkell Ásólfur Proppé tekur við starfi sviðsstjóra stefnumótunar og miðlunar um næstu áramót. Hrafnkell er með meistaragráðu í skipulagsfræði frá Álaborgarháskóla. Hann hefur undanfarið starfað sem verkefnisstjóri Borgarlínunnar og þar áður sem svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Natalia Potamianou hóf störf snemma í sumar sem sérfræðingur í teymi landupplýsinga. Natalia er með meistaragráðu í landmælingaverkfræði frá Tækniháskólanum í Aþenu í Grikklandi og er jafnframt að ljúka B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Þórdís Stella Erlingsdóttir hefur hafið störf sem sérfræðingur á sviði umhverfismats. Þórdís er með B.Sc.gráðu í landfræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla. 

3556Frá vinstri: Esther, Natalia, Björn, Þórdís, Gréta og Albert. Á myndina vantar þau Berglindi og Hrafnkel.