Fréttir


  • Skógafoss

8.2.2016

Ný náttúruverndarlög

Áhrif á skipulagsmál og umhverfismat

Í nóvember síðastliðnum samþykkti Alþingi ný náttúruverndarlög, sem leysa af hólmi náttúruverndarlögin frá 1999. Í þeim eru ýmis nýmæli sem hafa bein og óbein áhrif á skipulagsgerð sveitarfélaga, umhverfismat og leyfisveitingar til framkvæmda.

Þeir sem vinna að skipulagsmálum og umhverfismati, bæði áætlana og framkvæmda, eru hvattir til að kynna sér lögin vel. Meðal helstu ákvæða laganna sem áhrif hafa á skipulagsgerð og umhverfismat er eftirfarandi:

Náttúruminjaskrá

Í stað náttúruminjaskrár og náttúruverndaráætlunar í þeirri mynd sem þær voru í eldri náttúruverndarlögum, er í nýju lögunum gert ráð fyrir náttúruminjaskrá sem skiptist í þrjá hluta:

  • A-hluti náttúruminjaskrár, Friðlýst svæði. Tekur til skrár yfir friðlýst svæði flokkuð eftir friðlýsingarflokkum og friðaðar vistgerðir, vistkerfi og tegundir. Samsvarar lista yfir friðlýstar náttúruminjar í náttúruminjaskrá samkvæmt eldri lögum.
  • B-hluti náttúruminjaskrár, Framkvæmdaáætlun um friðlýsingar og friðun. Tekur til framkvæmdaáætlunar til næstu fimm ára, þ.e. skrár yfir þær náttúruminjar sem Alþingi hefur ákveðið að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum. Samsvarar náttúruverndaráætlun samkvæmt eldri lögum.
  • C-hluti náttúruminjaskrár, Aðrar mikilvægar náttúruminjar. Tekur til skrár yfir aðrar náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa eða friða. Kemur í stað lista yfir aðrar náttúruminjar í náttúruminjaskrá samkvæmt eldri lögum. 

Í nýjum náttúruverndarlögum eru jafnframt skilgreindir nýir flokkar friðlýstra svæða, þ.e. óbyggð víðerni og landslagsverndarsvæði.

Í skipulagsáætlunum sveitarfélaga skal gera grein fyrir þeim svæðum sem njóta verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, þar á meðal náttúruminjum í A-, B- og C-hluta náttúruminjaskrár og náttúrufyrirbærum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga.

Forðast ber að raska svæðum eða náttúrumyndunum sem skráðar hafa verið á C-hluta náttúruminjaskrár nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki, vegna slíkra framkvæmda.

Ákvæði um sérstaka vernd (áður 37. gr. nú 61. gr. náttúruverndarlaga)

Breytingar hafa orðið á því hvað fellur undir sérstaka vernd samkvæmt náttúruverndarlögum. Þar er, til að mynda, nú að finna birkiskóga auk þess sem orðalag einstakra ákvæða hefur breyst og breytingar orðið á stærðarviðmiðum.

Þá hefur ákvæðum um sérstaka vernd verið breytt þannig að nú ber að forðast að raska vistkerfum og jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar nema brýna nauðsyn beri til. Áður var eingöngu talað um forðast skyldi röskun eins og kostur er.

Þá er nú skylt að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki, vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar.

Sjá að öðru leyti að neðan um varúðarregluna í náttúruverndarlögum.

Verndarmarkmið og hugtakaskilgreiningar

Stori_dimon_minniÍ nýjum náttúruverndarlögum eru ítarlegri markmiðsákvæði en í eldri lögum, þar á meðal sérstök verndarmarkmið fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir sem og jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni.

Mörg hugtök eru skilgreind sem hafa þýðingu við túlkun og beitingu laganna, svo sem landslag, óbyggð víðerni, ræktað land og vegir.

Meginreglur, þar á meðal varúðarreglan

Í II. kafla nýrra náttúruverndarlaga eru ákvæði um meginreglur sem taka skal mið af við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana sem áhrif hafa á náttúruna. Þar kemur fram að við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana sem áhrif hafa á náttúruna skulu stjórnvöld m.a. taka mið af varúðarreglu og heildarálagi sem er á svæði eða það kann að verða fyrir. Þá skulu ákvarðanir stjórnvalda sem varða náttúruna, eins og kostur er, byggjast á vísindalegri þekkingu á verndarstöðu og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu vistgerða og vistkerfa og jarðfræði landsins.

Í 9. gr. eru ákvæði um að beita skuli varúðarreglunni þegar tekin er ákvörðun á grundvelli náttúruverndarlaganna, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna, og þannig leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum.

Umsækjendum um byggingar- og framkvæmdaleyfi ber að afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi og jarðminjar sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga eða minjar sem skráðar eru á C-hluta náttúruminjaskrár, ef óvissa er um hvort fyrirhugaðar framkvæmdir hafi alvarleg eða óafturkræf áhrif. Sveitarstjórn er heimilt að binda leyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg til að draga úr slíkum áhrifum. Ákvæði um þetta efni koma inn í skipulagslög og mannvirkjalög með nýjum náttúruverndarlögum.

Samræmi skipulags við framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár

Sveitarfélög skulu, þegar við á, samræma svæðis-, aðal- og deiliskipulag framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Sveitarstjórnum er heimilt að fresta skipulagsákvörðun á svæðum sem framkvæmdaáætlunin varðar í allt að tíu ár.

Umsagnir um skipulagstillögur og frummatsskýrslur

Sveitarfélög skulu við gerð deiliskipulags á náttúruverndarsvæðum og á svæðum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefnda.

Við gerð frummatsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefnda.

Skrá yfir vegi aðra en þjóðvegi

Iceland_minnstSveitarfélögum ber að gera tillögu að skrá yfir vegi í náttúru Íslands, aðra en þjóðvegi, innan sinna marka við gerð aðalskipulags og hlýtur hún samþykkt samhliða afgreiðslu aðalskipulags eða breytinga á aðalskipulagi. Sveitarfélögum er einnig heimilt að gera tillögu að slíkri skrá við gerð svæðisskipulags. Vegaskráin er háð samþykki Umhverfisstofnunar. Skipulagsstofnun ber að sjá til þess að Vegagerðinni berist upplýsingar um vegaskrá í viðkomandi sveitarfélagi til skráningar og birtingar í vegaskrá í stafrænum kortagrunni, sem Vegagerðin heldur, þegar aðalskipulag hefur verið staðfest.

Framkvæmdir og mannvirkjagerð falli að svipmóti lands

Líkt og í eldri náttúruverndarlögum eru ákvæði í nýju lögunum um að við hönnun vega, virkjana, verksmiðja og annarra mannvirkja skuli þess gætt að mannvirki falli sem best að svipmóti lands.  Sama á við varðandi túnrækt, skógrækt, uppgræðslu lands, skjólbeltagerð og aðra ræktun. Nýmæli er að sérstaklega er tiltekið að við gerð áætlana, umhverfismats og leyfisveitinga skuli taka afstöðu til þessa. 

Ákvæði um efnistöku

Ákvæð um efnistöku sem áður voru í náttúruverndarlögum hafa verið færð inn í skipulagslögin.

Nýju náttúruverndarlögin má nálgast á vef Alþingis.