Fréttir


  • Vegur

7.7.2021

Ný lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana

Alþingi samþykkti nú í júní ný lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem taka gildi 1. september nk. Lögin fela í sér heildarendurskoðun og sameiningu laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og laga um umhverfismat áætlana. 

Með lögunum er stuðlað að einföldun á ferli umhverfismats, auknum fyrirsjáanleika, styttri málsmeðferðartíma og aukinni samþættingu umhverfismats framkvæmda við málsmeðferð skipulagstillagna. Ákvæði um málskot eru einfölduð og framkvæmdaflokkar endurskoðaðir til að draga megi úr vafatilfellum um hvaða framkvæmdir falla undir lögin. Þá er skerpt á kröfum til leyfisveitenda um að taka mið af áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdar.

Framkvæmdaflokkar og stærðarmörk framkvæmda, sem segja til um hvort framkvæmd er háð umhverfismati eða tilkynningarskyld til ákvörðunar um hvort hún skuli háð umhverfismati, hafa verið endurskoðuð og felldur brott svokallaður C-flokkur framkvæmda. Þá er skerpt á kröfum til leyfisveitenda um að taka mið af áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar og ákvæði um málskot einfölduð.

Áhersla nýju laganna á skilvirkni og samráð endurspeglast meðal annars í ákvæðum um svokallað forsamráð framkvæmdaraðila, Skipulagsstofnunar, sveitarstjórna og annarra leyfisveitenda um ferli og tilhögun umhverfismatsvinnunnar hverju sinni. Þá er eins og áður er nefnt áhersla á samþættingu umhverfismats framkvæmda við gerð skipulagsáætlana sem framkvæmdin útheimtir. Einnig er lagt upp með verulegar breytingar á allri miðlun upplýsinga, með tilkomu gagna- og samráðsgáttar sem áætlað er að tekin verði í notkun fyrir árslok 2022.

Fjallað verður nánar um inntak nýju laganna á Umhverfismatsdeginum sem Skipulagsstofnun stendur fyrir 1. september nk., sama dag og lögin taka gildi.

Lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana


Mynd: Nur Ismail Mohammed – Dreamstime.com