Bjarnarflag – endurskoðun umhverfismats
Skútustaðahreppur hefur óskað eftir því að Skipulagsstofnun taki ákvörðun um hvort endurskoða þurfi mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar jarðvarmavirkjunar í Bjarnarflagi. Úrskurður um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar var kveðinn upp 26. febrúar 2004, en til grundvallar lá matsskýrsla Landsvirkjunar frá desember 2003. Samkvæmt 12. grein laga um mat á umhverfisáhrifum skal taka afstöðu til þess hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdar ef 10 ár líða frá umhverfismati, þar til leyfi til framkvæmda eru veitt. Það er Skipulagsstofnun sem tekur ákvörðun um hvort endurskoða þurfi mat á umhverfisáhrifum, í heild eða hluta, samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði.
Skipulagsstofnun hefur nú sent út umsagnarbeiðnir um erindi Skútustaðahrepps, þ.e. um það hvort tilefni sé til að endurskoða umhverfismat virkjunarinnar í heild eða að hluta. Umsagnaraðilar eru: Byggðastofnun, Ferðamálastofa, Fiskistofa, Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, Minjastofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Orkustofnun, Skútustaðahreppur, Umhverfisstofnun og Veðurstofa Íslands. Umsagnarfrestur er til 16. apríl 2014. Umsagnarbeiðnum fylgja þau gögn sem Skútustaðahreppur og Landsvirkjun hafa lagt fram til Skipulagsstofnunar vegna málsins, en það eru bréf Skútustaðahrepps dags. 18. febrúar 2014, bréf Landsvirkjunar dags. 30. október 2013 og 18. febrúar 2014 og skýrslan „Bjarnarflagsvirkjun, 90 MW. Rýni á umhverfismálum“, auk tiltekinna gagna á vef Landsvirkjunar (sjá á viðkomandi vefslóð undir „Tengt efni“). Þeim sem vilja kynna sér framkvæmdina er bent á framangreind gögn. Hægt er að koma athugasemdum á framfæri við Skipulagsstofnun til 16. apríl 2014 og þurfa þær að berast með bréfi eða tölvupósti.
Skipulagsstofnun stefnir að því að taka ákvörðun í málinu svo fljótt sem auðið er, þegar umsagnir og viðbrögð Landsvirkjunar vegna þeirra liggja fyrir. |