Fréttir


28.3.2014

Breytingar á byggingarreglugerð sem geta varðað deiliskipulag

Nýverið var birt breyting á byggingarreglugerð.  Breytingin varðar fyrst og fremst 6. hluta reglugerðarinnar, en jafnframt er breytt ákvæðum greinar 2.3.5 sem lúta að minniháttar mannvirkjum sem eru undanþegin byggingarleyfi.  Breytingar á þessari grein felast meðal annars í rýmri ákvæðum um skjólveggi og smáhýsi til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits.  

Skipulagsstofnun vekur athygli á að þrátt fyrir að tilteknar framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt grein 2.3.5 í byggingarreglugerð og að þær heimildir hafi nú verið rýmkaðar, þá geta verið ákvæði í deiliskipulagi viðkomandi svæðis sem takmarka eða jafnvel banna slíkar framkvæmdir.

Í skipulagsreglugerð segir eftirfarandi í gr. 5.3.2.11 sem fjallar um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi:

Í deiliskipulagi skal gera grein fyrir því hvort að minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar eru byggingarleyfi samkvæmt byggingarreglugerð séu óheimilar eða takmarkaðar að einhverju leyti.  Séu auknar kröfur gerðar til slíkra framkvæmda í skilmálum deiliskipulags eða í reglugerð þessari umfram það sem fram kemur í byggingarreglugerð ganga þær kröfur framar ákvæðum byggingarreglugerðar.