Fréttir


18.2.2014

Landsskipulagsstefna 2015-2026 – kynning á lýsingu

Vinna við gerð landsskipulagsstefnu er komin á fullt skrið og hefur Skipulagsstofnun auglýst Lýsingu Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem verður kynnt á sérstökum kynningar- og samráðsfundum. Í lýsingu er meðal annars gerð grein fyrir viðfangsefnum landsskipulagsstefnu, hvaða áherslur eru lagðar til grundvallar og hvernig fyrirhugað er að standa að greiningu forsendna og umhverfismati. Í lýsingu er einnig greint frá hvernig kynningu og samráði við mótun stefnunnar verður háttað.

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákveður viðfangsefni og áherslur landsskipulagsstefnu, sem eru að þessu sinni skipulag á miðhálendi Íslands, búsetumynstur og dreifing byggðar, skipulag haf- og strandsvæða og skipulag landnotkunar í dreifbýli.

Með kynningu lýsingar gefst hagsmunaaðilum kostur á að kynna sér hvernig fyrirhugað er að standa að mótun landsskipulagsstefnu og koma á framfæri hugmyndum og ábendingum um aðferðir og efnistök. Lýsingin verður kynnt á kynningar– og samráðsfundum í Reykjavík 25. febrúar, Borgarnesi 27. febrúar, Selfossi 28. febrúar, á Egilsstöðum 3. mars Ísafirði 4. mars, Akureyri 5. mars. Dagskrá fundanna auglýst síðar.

Lýsinguna er að finna hér og allir sem þess óska geta komið á framfæri ábendingum og athugasemdum við lýsinguna og skulu þær berast Skipulagsstofnun í síðasta lagi 12. mars 2014 með bréfi, tölvupóst á mailto:landsskipulag@landsskipulag.is eða á www.landsskipulag.is.

Lýsing Landsskipulagsstefnu 2015-2026

Lýsing Landsskipulagsstefnu 2015-2026 pdf útgáfa