Fréttir


13.2.2013

Rýni á ferli landsskipulagsstefnu 2013-2024

Landsskipulagsstefna er nú mótuð í fyrsta sinn og vinna við gerð hennar hefur verið mikið lærdómsferli fyrir alla sem hafa komið að þeirri vinnu. Kappkostað hefur verið að hafa ferlið opið með það að markmiði að allir sem það kjósa hafi haft möguleika á að taka þátt. Órjúfanlegur hluti af þessu ferli er því hlutlægt mat eða rýni á því hvernig hefur tekist til, með það að markmiði að læra af ferlinu og gera úrbætur þar sem þess gerist þörf við endurskoðun landsskipulagsstefnu. Áhersla í þessari rýnivinnu verður á það ferli sem Skipulagsstofnun hefur haldið utan um við gerð landsskipulagsstefnu 2013-2024.

Eðli málsins samkvæmt eru fáar fyrirmyndir að slíku mati eða rýni á ferli landsskipulagsstefnu en Skipulagsstofnun leggur áherslu að þetta sé hlutlægt mat eða rýni sem nýtist til að bæta ferlið. Annars vegar er um að ræða litla rýnifundi þar sem markmiðið er að ræða fyrirfram ákveðnar lykilspurningar sem varða ferlið. Hins vegar er um að ræða netkönnun sem lögð verður fyrir samráðsvettvang. Niðurstöður rýnivinnu verða skjalfestar í greinargerð sem birt verður á netinu og hún send þátttakendum á samráðsvettvangi, fulltrúum í ráðgjafarnefnd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ráðuneytum og stofnunum.