Fréttir


5.12.2011

Vestfjarðavegur milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði, Reykhólahreppi og Vesturbyggð

Mat á umhverfisáhrifum - Álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 m.s.b.

Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði áhrif á landslag og sjónræn áhrif og þá einkum vegna veglagningar um Litlanes og vegna þverunar Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar. Fyrirhugaðar þveranir Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar munu verða mjög áberandi mannvirki þar sem gert er ráð fyrir að fyllingar sem liggja að brúm verði allt að 80 m breiðar og 20 m háar og munu þannig skipta upp landslagsheildum fjarðanna. Þá er ljóst að þveranirnar eru á svæði sem nýtur verndar samkvæmt sérlögum um vernd Breiðafjarðar, m.a. vegna landslags, en einnig fjörur og leirur, og að mati Skipulagsstofnunar munu fyrirhuguð mannvirki rýra gildi svæðisins. Skipulagsstofnun telur að ekki séu til mótvægisaðgerðir sem dragi úr neikvæðum áhrifum þverananna á landslag og því verði áhrif á landslag og verndarsvæði vegna þverana Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar verulega neikvæð í ljósi staðsetningar, umfangs mannvirkanna og varanleika áhrifanna, burtséð frá því hvort um er að ræða veglínu A eða B. Rými til veglagningar á Litlanesi er takmarkað og ljóst er að við slíkar aðstæður kallar umfangsmikill vegur eins og Vegagerðin fyrirhugar, á verulegar fyllingar og skeringar, sem munu verða breiðar og djúpar og ná hátt upp í hlíð Litlanesfjalls á vestanverðu nesinu. Einnig er fyrirhugað að leggja veginn á breiðum fyllingum um víkur og fjörur á nesinu (veglína A) og á þeim stutta kafla mun fara undir veginn um 70% af þeim leirum sem framkvæmdin í heild mun raska. Skipulagsstofnun telur að þegar tekið er tillit til umfangs skeringa og fyllinga megni mótvægisaðgerðir, sem Vegagerðin fyrirhugar, lítið til að draga úr, koma í veg fyrir eða bæta fyrir neikvæð áhrif á landslag á Litlanesi. Vegna umfangs vegarins, staðsetningar hans og óafturkræfni áhrifanna verði áhrif á landslag nessins verulega neikvæð, burtséð frá því hvort um er að ræða veglínu A eða B.  Skipulagsstofnun telur að á öðrum svæðum verði áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á landslag talsvert neikvæð vegna umfangs og óafturkræfni áhrifanna.

 Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrifin á fugla verði á erni á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Lagning vegarins samkvæmt veglínu A mun leiða til þess að á kafla vegarins verða megin varpstaðir arna á því svæði sýnilegri vegfarendum en frá núverandi vegi og auk þess á lengri kafla. Skipulagsstofnun telur því líkur á að það geti leitt til þess að forvitni vegfarenda verði vakin og umgangur við hreiður arnanna verði meiri en nú er. Truflun yfir varptímann geti leitt til þess að varp misfarist og ítrekaðar truflanir leitt til langvinns misbrests. Misfarist arnarvarp um áraraðir vegna truflunar á varptíma verði áhrif vegagerðar um viðkomandi vegarkafla verulega neikvæð og hætta sé á að þau verði  varanleg. Verði vegurinn hins vegar lagður eftir núverandi vegi á áðurnefndum kafla (veglína B) telur Skipulagsstofnun að neikvæð áhrif umferðar á arnarvarp verði áþekk því sem nú sé og því megi gera ráð fyrir að varp þar haldi áfram að framkvæmdum loknum. Í ljósi þess að hávaði vegna vegavinnu getur styggt erni frá varpi telur Skipulagsstofnun að áhrifin geti verið að minnsta kosti talsvert neikvæð á framkvæmdatíma, óháð því hvor kosturinn verði valinn (veglína A eða B).

 Skipulagsstofnun telur að í framkvæmdaleyfi þurfi að setja skilyrði um að vinna við vegaframkvæmdir verði bönnuð nærri virkum varpstöðum arna á þeim tíma sem varp stendur yfir. Þá þurfi Vegagerðin að hafa samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands um endanlega staðsetningu vegstæðis í námunda við varpstaði arna og tilhögun vegavinnu þar m.a. með hliðsjón af 19. grein laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (nr. 64/1994).

 

Álitið í  heild liggur frammi hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. 

Álit Skipulagsstofnunar og matsskýrslu Vegagerðarinnar er einnig að finna hér