Fréttir


8.6.2011

Rannsókna- og þróunarsjóður Skipulagsstofnunar

Í 1. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að af innheimtu skipulagsgjaldi sem rennur í Skipulagssjóð er heimilt að verja fjármagni til að standa straum af þróunar- og rannsóknaverkefnum á sviði skipulagsmála sem nýtast sveitarfélögum við gerð skipulagsáætlana. Skipulagsstofnun annarst vörslu Skipulagssjóðs og greiðslur úr honum. Til þess að annast þau verkefni Skipulagssjóðs sem snúa að styrkveitingum til rannsókna- og þróunarverkefna er starfandi úthlutunarnefnd sem í eiga sæti forstjóri Skipulagsstofnunar, sviðsstjóri skipulagssviðs og sviðsstjóri umhverfissviðs. Hlutverk úthlutunarnefndar er að taka ákvarðanir um úthlutun fjárveitinga til einstakra verkefna.  Sú upphæð sem er til úthlutunar er ákveðin í rekstraráætlun hvers árs og er upphæðin 5 m. kr. á árinu 2011. Gert er ráð fyrir því að á hverju ári verði úthlutað 3 - 5 styrkjum. Úthlutunarnefndin áskilur sér rétt til að hafna umsóknum falli þær ekki að megináherslum sem hafðar eru til hliðsjónar við úthlutun eða eru ófullnægjandi að mati nefndarinnar. Á heimasíðun Skipulagsstofnunar er að finna umsóknareyðublað.

Umsóknum um styrki úr rannsókna- og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar þarf að skila fyrir 1. ágúst og ákvörðun um styrki  til einstakra verkefna er tekin  fyrir 1. október. Greiðslum er skipt í tvennt. 25% er greitt þegar endanleg verkáætlun liggur og 75% þegar niðurstöðum hefur verið skilað til Skipulagsstofnunar.

Lögð er áhersla á hagnýtar rannsóknir og nýtingu  þekkingar- og gagnaöflunar á  starfssviði Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun getur haft frumkvæði að rannsóknum og gert er ráð fyrir að hluti fjármagns í sjóðnum verði notað til að styrkja verkefni sem teljast til grunnrannsókna og tengjast starfsemi Skipulagsstofnunar.

 

Í verkefnaáætlun fyrir árið 2011 eru kynntar megináherslur í starfsemi Skipulagsstofnunar næstu 3 árin og verða þær hafðar til hliðsjónar við ákvarðanatöku um úthlutanir. Þessar áherslur voru:

  •   Landsskipulagsstefna og samþætting áætlana
  •   Tengsl skipulags, umhverfismats áætlana og mats á umhverfisáhrifum framkvæmd
        -
    Rannsóknir og þróun
        - Skipulag haf- og strandsvæða
        - Landslag í mati og skipulagi
        - Landbúnaðarland, flokkun o. fl
        - Ný tegund aðalskipulagsáætlana
  •   Framkvæmd nýrra laga, samráð og leiðbeiningar
  •   Gagnamál, aðgengi og framsetning