Fréttir


13.4.2011

Lýsing og staða aðalskipulagsvinnu

Tilmæli til sveitarfélaga

Í skipulagslögum nr. 123/2010 er það nýmæli að vinna við gerð aðalskipulags hefjist með lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem gerð er grein fyrir áherslum sveitarstjórnar við skipulagsgerðina, forsendum þess og hvernig staðið verði að samráði og kynningu við íbúa, opinberar stofnanir og aðra hagsmunaaðila. Markmiðið með ákvæðinu er að gagnsæ vinnubrögð séu viðhöfð við skipulagsgerðina og að tryggja að samráð sé haft við íbúa frá upphafi skipulagsgerðar. Með því að kynna lýsinguna í upphafi skipulagsgerðar fyrir stofnunum sem fara með þá málafokka sem skipulagið tekur til er stuðlað að virkara samráði við þessa aðila.
Hafi aðalskipulagstillaga ekki komið til athugunar Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 17. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir 1. janúar 2011 skal farið með tillöguna samkvæmt þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í skipulagslögum nr. 123/2010.
Samkvæmt skráningu hjá Skipulagsstofnun eru 10-12 aðalskipulagstillögur á vinnslustigi endurskoðunar. Mismunandi er hvaða samráð og kynning hefur farið fram á vinnslutímanum og því þarf að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvernig ákvæðum laganna um lýsingu verður best framfylgt.
Skipulagsstofnun óskar eftir að sveitarfélög sem eru að endurskoða sitt aðalskipulag og höfðu ekki sent stofnuninni aðalskipulagstillögu til athugunar fyrir 1. janúar síðastliðinn, hafi samráð við stofnunina um hvernig fella megi skipulagsferlið að nýjum skipulagslögum.
Senda skal stofnuninni samantekt um stöðu aðalskipulagsvinnunnar, hvort og þá hvenær samráð hefur verið haft við almenning, umsagnaraðila (fagstofnanir) og aðra hagsmunaaðila. Gera þarf grein fyrir í hverju samráðið fólst, svo sem hvort haldinn hafi verið íbúafundur og hvaða gögn voru þar kynnt. Jafnframt þarf að gera grein fyrir hvernig samráði við fagstofnanir hefur verið háttað.
Sjö af þeim sveitarfélögum sem nú eru að endurskoða sitt aðalskipulag hafa haft samráð við Skipulagsstofnun um matslýsingu. Bent er á að matslýsing getur ekki komið í staðinn fyrir lýsingu nema að hún hafi verið kynnt almenningi. Í samantektinni þarf að koma fram hvort matslýsing sem stofnunin hefur yfirfarið hafi verið kynnt og þá hverjum, hvenær og hvernig.