Skipulagsdagurinn 2015 - Opnað hefur verið fyrir skráningu
Hilton Reykjavík Nordica 17. september kl. 9:30 – 16:00
Skipulagsdagurinn er árlegur samráðsfundur Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna
Opnað hefur verið fyrir skráningu á Skipulagsdaginn 2015, sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica 17. september næstkomandi. Skrá þarf þátttöku á skipulagsstofnun.is fyrir 10. september og er þátttökugjald 5.000 kr. Húsið opnað kl. 9:00 og er fólk beðið að mæta tímanlega til að ganga frá skráningu.
Skipulagsdagurinn er árlegur samráðsfundur Skipulagsstofnunar og sveitarfélaganna og til hans er boðið sveitarstjórnarmönnum og starfsfólki sveitarfélaga sem fara með skipulagsmál. Að skipulagsmálum koma margir aðrir aðilar, svo sem skipulagsráðgjafar og ýmsar stofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki við skipulagsgerð sveitarfélaganna. Því er þessum aðilum einnig boðið að taka þátt í Skipulagsdeginum 2015.
Viðfangsefni Skipulagsdagsins hverfist að þessu sinni um vindorku, ferðamannastaði og búsetumynstur og tengsl þeirra við skipulagsgerð. Fyrir hádegi mun sérfræðingur frá skipulagsyfirvöldum Skotlands miðla af reynslu þar í landi af skipulagi vindorkunýtingar. Þá verður einnig flutt erindi um um tengsl skipulagsáætlana og áætlana um mörkun svæða ( place branding, regional branding). Samband íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnun verða með innlegg af vettvangi skipulagsmála.
Eftir hádegi verða vinnustofur um hvert þema, þ.e. vindorkuver, ferðamannastaði og búsetumynstur.