Fréttir


6.8.2015

Ný lög og reglugerðir sem áhrif hafa á framkvæmd skipulagsmála

Á nýliðnu þingi samþykkti Alþingi nokkur ný lög og lagabreytingar sem áhrif hafa á framkvæmd skipulagsmála. Einnig hafa verið gerðar breytingar á reglugerðum sem hafa þarf í huga með tilliti til skipulagsmála. Hér að neðan er tekið saman yfirlit yfir það helsta.

 

Jarðalög - Lög nr. 29/2015 um breytingu á jarðalögum nr. 81/2004

Í júní síðastliðnum tóku gildi breytingar á jarðalögum. Helstu atriði þeirra varðandi skipulagsmál eru:

  • Ef fyrirhugað er að breyta landnotkun á landbúnaðarsvæðum á svæði sem er 5 hektarar eða stærra, þarf sveitarstjórn að leita leyfis landbúnaðarráðherra. Það þarf að gera við endurskoðun eða breytingu á aðalskipulagi.
  • Einnig þarf sveitarstjórn að leita leyfis landbúnaðarráðherra vegna svæða sem eru minni en 5 hektarar, ef um er að ræða land sem telst „gott ræktunarland, hentar vel til landbúnaðar eða vegna legu sinnar telst að öðru leyti mikilvægt vegna matvælaframleiðslu“.
  • Við mat sveitarfélaga á því hvort afla þurfi leyfis ráðherra skal annars vegar taka mið af flokkun landbúnaðarlands í aðalskipulagi og hins vegar stefnu stjórnvalda um flokkun landbúnaðarlands (þegar hún liggur fyrir). Liggi flokkun landbúnaðarlands ekki fyrir skal sveitarfélagið óska eftir umsögn ráðunautar um viðkomandi land.

Lagabreytinguna má nálgast á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/144/s/1370.html

 

Lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015

Nú í júlí tóku gildi lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta. Eitt af markmiðum laganna er að færa aukna ábyrgð á byggða- og samfélagsþróun til sveitarstjórna. Þá er stýrihópi stjórnarráðsins um byggðamál falið að efla samhæfingu innan stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í þessum málaflokki.

Samkvæmt lögunum skal ráðherra byggðamála leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til sjö ára í senn. Í lögunum eru jafnframt ítarleg ákvæði um gerð sóknaráætlana landshluta, sem taka til starfsvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Sóknaráætlanir skulu taka mið af byggðaáætlun, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum sveitarfélaga, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun.

Lögin má nálgast á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/144/s/1523.html

 

Lög um mat á umhverfisáhrifum – breyting á lögum & ný reglugerð

Alþingi samþykkti í árslok 2014 breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Stærsta nýmælið í þeirri lagabreytingu er að við bætist nýr flokkur tilkynningarskyldra framkvæmda, svokallaður flokkur C. Jafnframt er framsetningu matsskyldra og tilkynningarskyldra framkvæmda í lögunum breytt. Þannig eru matsskyldar framkvæmdir nú settar fram sem framkvæmdir í flokki A og þær framkvæmdir sem áður voru í 2. viðauka laganna og eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar, eru nú settar fram sem framkvæmdir í flokki B.

Nýi framkvæmdaflokkurinn, flokkur C, nær yfir framkvæmdir sem liggja neðan viðmiðunarmarka í flokki B og eru því almennt framkvæmdir af takmörkuðu umfangi. Þær eru tilkynningarskyldar til viðkomandi sveitarfélags, sem tekur ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Undantekningar frá því eru framkvæmdir í flokki C á öryggis- og varnarsvæðum og utan netlaga, en þær skal tilkynna til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um hvort þær skuli háðar umhverfismati.

Ákvæði lagabreytingarinnar sem varða flokk C tóku gildi í júní síðastliðnum, en önnur ákvæði lagabreytingarinnar tóku gildi í árslok 2014.

Jafnframt hefur reglugerð um mat á umhverfisáhrifum verið endurskoðuð. Ný reglugerð um mat á umhverfisáhrifum er nr. 660/2015.

Lög um mat á umhverfisáhrifum með áorðnum breytingum má nálgast hér: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2000106.html

Nýja reglugerð um mat á umhverfisáhrifum má nálgast hér: http://stjornartidindi.is/Advert.aspx?recordID=573bd583-605f-46fc-8337-2c21befb524b

 

Lög um náttúruvernd nr. 35/2015, frestun á gildistöku

Alþingi samþykkti í vor að fresta enn gildistöku náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Lögin höfðu átt að taka gildi nú í sumar, en gildistöku þeirra hefur verið frestað til 15. nóvember næstkomandi.

 

Lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015

Nú í júlí tóku gildi ný lög um verndarsvæði í byggð. Með lögunum verður til ný tegund verndunar byggðar sem forsætisráðherra getur ákveðið, til viðbótar þeim friðlýsingum sem hann getur ákveðið á grundvelli laga um menningarminjar. Eftir sem áður munu sveitarfélög geta hverfisverndað byggð í skipulagsáætlunum sínum. Helstu atriði laganna sem tengjast skipulagsgerð sveitarfélaga eru:

  • Sveitarstjórnir skulu, að loknum sveitarstjórnarkosningum, meta hvort innan staðarmarka sveitarfélagsins sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu svipmóts og menningarsögu varðar, ásamt listrænu gildi, að ástæða sé til að gera tillögu til forsætisráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð.
  • Forsætisráðherra tekur ákvörðun um verndun byggðar á grundvelli laganna, að fenginni tillögu sveitarstjórnar eða Minjastofnunar Íslands, eða að eigin frumkvæði.
  • Þegar forsætisráðherra hefur friðlýst svæði sem verndarsvæði í byggð, getur viðkomandi sveitarfélag sett sér samþykkt um frekari vernd svipmóts byggðar en mælt er fyrir um í ákvörðun ráðherra og að gera framkvæmdir sem snerta svipmót byggðar á svæðinu leyfisskyldar. Slík samþykkt er háð staðfestingu forsætisráðherra.
  • Ákvörðun forsætisráðherra um verndarsvæði í byggð skal jafnframt endurspeglast í skipulagsáætlunum, öðrum áætlunum og leyfisveitingum sveitarfélaga.

Lögin má nálgast á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/144/s/1605.html

 

Raforkulög - Lög nr. 26/2015 um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003

Í júní síðastliðnum tók gildi breyting á raforkulögum sem samþykkt var á nýliðnu þingi. Lagabreytingin felst fyrst og fremst í því nýmæli að iðnaðarráðherra ber, á fjögurra ára fresti, að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem síðan skal lögð til grundvallar við gerð kerfisáætlunar Landsnets. Hitt meginatriði lagabreytingarinnar er að sett er skýrari og ítarlegri lagaumgjörð um gerð kerfisáætlunar Landsnets.

Helstu atriði lagabreytingarinnar sem varða framkvæmd skipulagsmála eru:

  • Alþingi mun afgreiða stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku á fjögurra ára fresti. Iðnaðarráðherra skal leggja fram á Alþingi tilllögu að slíkri stefnu fyrir 15. október 2016. Þar til hún liggur fyrir skal kerfisáætlun Landsnets taka tillit til stefnu stjórnvalda um lagningu raflína sem Alþingi hefur þegar samþykkt (um hana er fjallað hér að neðan).
  • Landsneti ber árlega að leggja kerfisáætlun fyrir Orkustofnun til samþykktar. Kerfisáætlunin skiptist í langtímaáætlun til 10 ára og framkvæmdaáætlun til þriggja ára.
  • Landsnet skal hafa samráð við sveitarfélög við mótun kerfisáætlunar.
  • Ákveða skal legu flutningslína í skipulagi að fenginni tillögu Landsnets í samræmi við kerfisáætlun, að höfðu samráði þess og skipulagsyfirvalda.
  • Sveitarstjórnum ber við endurskoðun aðalskipulags, og eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir kerfisáætlun (langtímaáætlun). Sveitarstjórnum er þó heimilt að fresta skipulagi vegna framkvæmda í kerfisáætlun í allt að átta ár enda séu fyrir því gildar ástæður og fyrir liggi jákvæð umsögn Landsnets.

Lagabreytinguna má nálgast á vef Alþingis:  http://www.althingi.is/altext/144/s/1356.html


Þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína

Í vor samþykkti Alþingi einnig þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Eins og kemur fram hér að ofan um breytingu á raforkulögum er síðan gert ráð fyrir að Alþingi fái til afgreiðslu tillögu að heildstæðri stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku eigi síðar en haustið 2016, og mun hún þá leysa af hólmi stefnuna sem samþykkt var nú í vor.

Í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína eru sett fram viðmið og meginreglur sem verði lagðar til grundvallar við uppbyggingu dreifi- og flutningskerfi raforku. Þessi viðmið varða fyrst og fremst val á milli lagningu loftlína og jarðstrengja með tilliti til staðsetningar og kostnaðar. Í lágspennta dreifikerfinu skal meginreglan vera sú að nota jarðstrengi. Í landshlutakerfinu gildir sama meginregla að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í meginflutningskerfinu skal meginreglan vera sú að nota loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- og öryggissjónarmiðum.

Þingsályktunina má nálgast á vef Alþingis:  http://www.althingi.is/altext/144/s/1355.html

 

Vegalög - Lög nr. 14/2015 um breytingu á vegalögum nr. 80/2007

Í febrúar síðastliðnum tóku gildi breytingar á vegalögum. Helstu atriði þeirrar lagabreytingar sem varða skipulagsgerð sveitarfélaga eru:

  • Lágmarkslengd tengivega miðast við 2 km í stað 10 km áður.
  • Orðalagi í skilgreiningu héraðsvega er breytt.
  • Þá er skilgreiningu á sveitarfélagsvegum breytt. Þeir gátu áður aðeins verið  innan þéttbýlis, en geta eftir lagabreytinguna bæði legið  innan og utan þéttbýlis.
  • Bætt er inn ákvæði um tilkynningar Vegagerðarinnar, ef fyrirhugað er að fella veg af vegaskrá.
  • Bætt er inn ákvæði um að ef sameining sveitarfélaga hefur þau áhrif að vegur færist úr flokki stofnvega í flokk sveitarfélagsvega skuli Vegagerðin halda veginum við í að hámarki 5 ár frá sameiningu.
  • Bætt er inn ákvæði um mat á umferðaröryggi mismunandi kosta við vegarlagningu og samráð Vegagerðarinnar við sveitarfélög um það.

Lagabreytinguna má nálgast á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/144/s/0955.html

 

Reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína

Í júní síðastliðnum tók gildi reglugerð um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Reglugerðin gildir um staðsetningu eldishúsa, skipulag og húsakost. Helstu atriði eru:

  • Fjarlægðarmörk skulu ákvörðuð í skipulagsáætlunum að teknu tilliti til hugsanlegra umhverfisþátta og þeirra lágmarksfjarlægða sem kveðið er á um í reglugerðinni.
  • Eldishús má aðeins byggja á svæðum sem skipulögð eru fyrir landbúnað, iðnað eða þar sem hefur verið mörkuð stefna í aðalskipulagi um staðsetningu eldishúsa.
  • Í reglugerðinni eru skilgreind lágmarks fjarlægðarmörk eldishúsa frá mannabústöðum og öðrum tilgreindum notum. Fjarlægðarmörkin eru mismunandi eftir tegund og umfangi eldis.
  • Samhliða setningu þessarar reglugerðar hafa verið felld út úr reglugerð um hollustuhætti eldri ákvæði um 500 m fjarlægð loðdýrabúa, alifuglabúa og svínabúa frá mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra.

Reglugerðina má nálgast hér: http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/umhverfis--og-audlindaraduneyti/nr/0520-2015