Nordic Built Cities Challenge
Spennandi tækifæri til að tilnefna svæði í norræna skipulagssamkeppni
Sveitarfélögum og öðrum forsvarsaðilum svæða, svo sem fasteigna- og þróunarfélögum, gefst nú kostur á að tilnefna svæði til þátttöku í norrænni skipulagssamkeppni, Nordic Built Cities Challenge. Samkeppnin er hluti áætlunar sem Norræni nýsköpunarsjóðurinn vinnur að á árabilinu 2015-2018 um sjálfbærni og nýsköpun í skipulagi norrænna bæja og borga. Markmið samkeppninnar er að styðja nýsköpun og þverfaglegar lausnir í norrænni skipulagsgerð og stuðla að sjálfbæru bæjarskipulagi.
Samkeppni í þremur áföngum
Fyrsti áfangi keppninnar, sem nú er blásið til, felst í að velja eitt skipulagssvæði til þátttöku í hverju Norðurlandanna.
Annar áfangi keppninnar, sem hefst í september 2015, felst í hugmyndasamkeppni um þau svæði sem valin voru í fyrsta áfanga. Í lok annars áfanga verða valdar allt að fjórar tillögur um hvert svæði til frekari útfærslu.
Í þriðja áfanga, sem áætlað er að hefjist í febrúar 2016, verða framangreindar tillögur útfærðar. Í lok þriðja áfanga stendur uppi ein sigurtillaga fyrir hvert svæði og jafnframt sigurtillaga fyrir Norðurlöndin í heild, valin úr hópi allra svæðanna. Gert er ráð fyrir að endanleg úrslit liggi fyrir í september 2016.
Hvernig er tilnefnt í keppnina?
Opnað hefur verið fyrir tilnefningar svæða til að taka þátt í samkeppninni. Sveitarfélög og/eða fasteigna- og þróunarfélög geta tilnefnt svæði í keppnina. Frestur til að tilnefna svæði er til 20. maí næstkomandi.
Hverskonar svæði er hægt að tilnefna?
Leitað er eftir svæðum sem ná til bæjarrýma eða reita í þéttbýli þar sem þörf er á úrbótum til að glæða svæðin lífi og stuðla að sjálfbærni. Jafnframt er ætlast til að raunhæft geti verið að hrinda úrbótum í framkvæmd, að samkeppni lokinni, á 2-4 árum.
Svæði sem koma til greina geta bæði verið þegar byggð eða hluti nýbyggingarsvæða, en gerð er krafa um að þau séu skýrt afmörkuð og hafi gildi sem bæjarrými til almannanota. Þetta geta til dæmis verið torgsvæði, miðbæjar- eða verslunargötur, almenningsgarðar, vannýtt opin svæði eða afmarkaðir endurnýjunar- eða endurbyggingarreitir.
Til grundvallar samkeppninni, bæði vali á svæðum í upphafi og tillögum um þau í síðari áföngum keppninnar, liggur Nordic Built sjálfbærni-sáttmálinn. Við val á svæðum í samkeppnina verður einnig horft til þess að þau bjóði upp á möguleika á lausnum sem geti orðið fyrirmynd fyrir sambærileg skipulagsviðfangsefni annars staðar.
Jafnframt þarf að liggja fyrir að forsvarsaðili svæðisins, hvort sem það er viðkomandi sveitarfélag og/eða fasteigna- eða þróunarfélag, sé reiðubúinn að standa að staðbundinni samkeppni um skipulag og hönnun viðkomandi svæðis, með stuðningi frá Norræna nýsköpunarsjóðnum.
Ávinningur af þátttöku í samkeppninni
Norræni nýsköpunarsjóðurinn mun veita forsvarsaðila þess svæðis sem valið er til þátttöku í samkeppninni í hverju landi fjárstuðning sem nemur allt að 800 þúsund NOK (um 14 milljónir IKR) vegna kostnaðar við stjórnun staðbundinnar samkeppni um svæðið.
Með þátttöku í samkeppninni gefst tækifæri til að fá fram frumlegar og hagnýtar lausnir á svæðum sem þarfnast úrbóta. Einnig gefst tækifæri til tengslamyndunar og að skiptast á þekkingu við fagfólk á ýmsum sviðum á hinum Norðurlöndunum.
Þá mun Norræni nýsköpunarsjóðurinn veita styrki til allt að fjögurra tillagna í hverri staðbundinni keppni sem nema 300 þúsund NOK (um 5 milljónir IKR) hver. Styrkirnir eru ætlaðir til að þróa hugmyndirnar frekar á milli annars og þriðja áfanga keppninnar.
Svæðin keppa loks sín í milli, á milli allra Norðurlandanna, og hlýtur sú tillaga sem verður hlutskörpust í heildarkeppninni 1.200 þúsund NOK (um 20 milljónir IKR).
Frekari upplýsingar
Vefsíða Nordic Built Cities Challenge, http://nordicbuiltcities.org/thechallenge/
Nánari upplýsingar um samkeppnina, http://nordicbuiltcities.org/thechallenge/criteria/
Nordic Built sjálfbærni-sáttmálinn, http://nordicbuiltcities.org/the-charter/
Og hér er hægt að tilnefna svæði í keppnina, http://217.171.223.12/web/portal/application.html?id=6D9GPB
Frekari upplýsinga má einnig leita hjá Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur (asdishlokk@skipulagsstofnun.is) sem er fulltrúi Íslands í stýrihópi verkefnisins og hjá Kristina Mårtensson, verkefnisstjóra Nordic Built Cities hjá Nordic Innovation (k.martensson@nordicinnovation.org).
Frestur til að tilnefna svæði til þátttöku í keppninni er til 20. maí næstkomandi.
Jafnframt er vakin athygli á ráðstefnum á vegum þessa verkefnis og norrænu vistbyggðarráðanna 27.-28. apríl næstkomandi í Kaumannahöfn. Sjá nánar:
Nordic Built Cities Arena 27.4.2015 og Nordic Green Building Councils Conference 28.4.2015,
How do we develop liveable, smart and sustainable cities and buildings in the Nordic Region?
http://nordicgbc.org/