Ósk um endurupptöku umhverfismats Vestfjarðavegar um Reykhólahrepp
Skipulagsstofnun hefur borist erindi Vegagerðarinnar, þar sem óskað er eftir endurupptöku á hluta úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 28. febrúar 2006, um Vestfjarðaveg um Reykhólahrepp, nánar tiltekið vegna veglínu B um Teigsskóg. Vegagerðin leggur 24. grein stjórnsýslulaga auk ólögfestra heimilda um endurupptöku til grundvallar beiðni sinni um endurupptöku.
Forsaga málsins
Vestfjarðavegur um Reykhólahrepp fór í umhverfismat árið 2005. Lokaniðurstaða þess ferlis, að gengnum úrskurðum Skipulagsstofnunar 2006 og umhverfisráðherra 2007 og dómum Héraðsdóms 2008 og Hæstaréttar 2009 var að óheimilt væri að leggja veg eftir svokallaðri leið B, sem liggur meðal annars um Teigsskóg, vegna umhverfisáhrifa. Einnig var óheimilt að leggja veg eftir leið C, en fallist á lagningu vegarins eftir leið D um Hjallaháls.
Veglínur sem Vegagerðin lagði fram til úrskurðar í frummatsskýrslu árið 2005 (mynd unnin upp úr matsskýrslu Vegagerðarinnar frá 2005).
Málið hefur verið til skoðunar síðan hjá samgönguyfirvöldum og áfram verið áhugi fyrir lagningu vegar um leið B. Vegagerðin hefur í tvígang, árin 2013 og 2014, lagt fram tillögu að matsáætlun (upphaf nýs umhverfismats) vegna útfærslna á leið B (kölluð leið B1 2013 og Þ-H 2014) en Skipulagsstofnun hefur synjað því að taka málið fyrir með vísan til áðurnefnds dóms Hæstaréttar.
Þær leiðir sem Vegagerðin lagði fram í tillögu að matsáætlun 2014 (mynd 1 í tillögu Vegagerðarinnar).
Síðastliðið haust spannst umræða á Alþingi um vegagerð í Reykhólahreppi og framhald þessa máls. Eftir athugun á vegum innanríkisráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis á mögulegri málsmeðferð, varð niðurstaðan sú að Vegagerðin myndi leita eftir endurupptöku umhverfismatsins. Ákvæði í lögum um mat á umhverfisáhrifum um möguleika á endurskoðun umhverfismats einskorðast við framkvæmdir þar sem 10 ár eru liðin frá því umhverfismatið fór fram. Það á ekki við í þessu tilfelli, og því þarf ósk um endurskoðun eða endurupptöku umhverfismats að byggja á stjórnsýslulögum eða áskráðum reglum stjórnsýsluréttar.
Málsmeðferð nú
Í erindi Vegagerðarinnar sem nú er til umfjöllunar er greint frá breytingum sem gerðar hafa verið á hönnun Vestfjarðavegar milli Þórisstaða og Melaness auk þess sem komið er á framfæri upplýsingum sem aflað hefur verið frá því mat var lagt á umhverfisáhrif vegarins. Vegagerðin telur að verulegar breytingar hafi orðið á forsendum sem lagðar voru til grundvallar mati á umhverfisáhrifum árið 2005 og byggt var á í úrskurði Skipulagsstofnunar árið 2006 og því sé forsenda til þess að endurmeta umhverfisáhrif vegarins. Nálgast má gögn vegna málsins á eftirfarandi slóð: http://www.vegagerdin.is/framkvaemdir/umhverfismat/matsskyrslur/nr/9536
Samkvæmt stjórnsýslulögum skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Með hliðsjón af því hefur Skipulagsstofnun leitað umsagna leyfisveitenda og annarra þeirra sem veittu umsögn á sínum tíma í umhverfismatsferlinu. Almenningi stendur jafnframt til boða að koma athugasemdum á framfæri.
Frestur almennings til að koma athugasemdum á framfæri er til og með 23. febrúar 2015. Þær þurfa að berast bréflega til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 105 Reykjavík eða með tölvupósti á netfangið skipulagsstofnun@skipulagsstofnun.is