Fréttir


5.1.2015

Breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum var samþykkt á Alþingi þann 15. desember 2014.

Helstu breytingarnar felast í að allar framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum eru nú tilgreindar í einum viðauka, viðauka 1. Þær eru flokkaðar í þrjá flokka, flokk A, B og C.

Í flokki A eru matsskyldar framkvæmdir, sambærilegar og 1. viðauki laganna tók áður til.  Í flokki B eru framkvæmdir sem eru tilkynningaskyldar til Skipulagsstofnunar, sambærilegar og áður voru í 2. viðauka laganna.  

Málsmeðferð framkvæmda í flokki A og B verður sú sama og áður átti við framkvæmdir í 1. og 2. viðauka laganna.

Flokkur C er nýr og tilgreinir framkvæmdir sem eru neðan/utan viðmiðunarmarka framkvæmda í flokki B.  Líkt og framkvæmdir í flokki B er um að ræða framkvæmdir sem eru tilkynningaskyldar.  Framkvæmdir í flokki C eru aftur á móti tilkynningaskyldar til viðkomandi sveitarfélags, sem tekur ákvörðun um hvort framkvæmdin sé matsskyld.  Gert er ráð fyrir að málsmeðferð vegna framkvæmda sem falla í flokk C  verði einfaldari og taki styttri tíma, en framkvæmdir sem falla í B flokk.

Í 2. viðauka er að finna ákvæði þau sem voru áður í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, með viðbótum.

Lögin taka þegar gildi nema ákvæði um framkvæmdir í C-flokki, en gildistaka þess hluta laganna er 1. júní 2015 og mun kynningarefni til sveitarstjórna auk leiðbeininga ásamt reglugerð verða tilbúin fyrir þann tíma.

 

Lögin um breytinguna má nálgast hér.