Mannvirki á miðhálendinu
Út er komin skýrslan Mannvirki á miðhálendinu þar sem gerð er grein fyrir mannvirkjum og þjónustu á miðhálendinu. Tilgangur hennar er að gefa heildstæða yfirsýn yfir núverandi húsakost og þjónustuframboð á miðhálendinu. Slík yfirsýn er nauðsynleg forsenda fyrir frekari stefnumótun um skipulagsmál á miðhálendinu. Í Landsskipulagsstefnu 2015–2026 er Skipulagsstofnun falið að vinna að slíkri skráningu í samvinnu við Þjóðskrá Íslands og sveitarfélög á miðhálendinu. Við gerð skýrslunnar hefur verið byggt á fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og gögnum frá sveitarfélögum á miðhálendinu, auk upplýsinga frá fjölmörgum stofnunum, félagasamtökum og einstaklingum og ritaðra heimilda.
Meðal helstu niðurstaðna eru:
- Á miðhálendinu eru alls tæplega 600 byggingar tengdar ferðaþjónustu sem dreifast á tæplega 200 staði. Yfirgnæfandi meirihluti ferðaþjónustubygginga á miðhálendinu eru litlir fjallaskálar, 50 m2 eða minni.
- Aðeins um 60% bygginga á miðhálendinu eru skráðar í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.
- Fjöldi ferðaþjónustubygginga og gistirúma hefur staðið nokkuð í stað á miðhálendinu síðastliðin 20 ár, eða frá því gert var svæðisskipulag fyrir miðhálendið.
- Almennt er ástand bygginga á miðhálendinu metið gott eða sæmilegt, en dæmi um að úrbóta sé þörf eða að mannvirki séu talin ónothæf.
- Gisting á miðhálendinu er almennt í fjallaskálum með eldunaraðstöðu, en hótel- og gistiheimili með veitingasölu eru þó á nokkrum stöðum.
Í skýrslunni eru einnig teknar saman upplýsingar um virkjanir og orkuflutningsmannvirki á miðhálendinu en stærstu vatnsaflsvirkjanir landsins liggja í heild eða að hluta innan marka miðhálendisins. Jafnframt liggja innan hálendismarkanna háspennulínur sem tengja þær virkjanir við raforkuflutningskerfið og einstaka stórnotendur. Þá liggur hluti Byggðalínu inn á miðhálendið.
Þá er í skýrslunni tekið saman yfirlit yfir þann hluta vegakerfis miðhálendisins sem tilheyrir þjóðvegakerfinu. Víða um miðhálendið liggja hinsvegar aðrir vegir og vegslóðar, en þeir hafa ekki verið skráðir í þessu verkefni. Flestir vegir um miðhálendið, hvort sem þeir tilheyra þjóðvegakerfinu eða ekki, eru einfaldir malarvegir eða vegslóðar, í sumum tilfellum torfærir og með óbrúuðum ám. Örfáir vegir sem liggja um eða inn á miðhálendið eru með bundnu slitlagi. Þá eru fjarskiptamannvirki á rúmlega 20 stöðum á miðhálendinu. Í flestum tilfellum er um að ræða mastur og lítið hús sem hýsir tæknibúnað.
Mannvirki á miðhálendinu. Framfylgdarverkefni Landsskipulagsstefnu 2015-2026
Hægt er að nálgast prentað eintak skýrslunnar hjá Skipulagsstofnun.
Landupplýsingagögn um ferðaþjónustumannvirki á miðhálendinu eru aðgengileg í kortasjá.
Ferðaþjónustumannvirki á miðhálendinu, kortasjá.