Kortlagning mannvirkja og þjónustu á miðhálendinu
Skipulagsstofnun hefur í samstarfi við sveitarfélög og stofnanir hafið vinnu við verkefni um kortlagningu mannvirkja og þjónustu á miðhálendinu. Það er eitt af framfylgdarverkefnum nýsamþykktrar landsskipulagsstefnu 2015-2026 og er hluti af stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands.
Kortlagningunni er ætlað að gefa heildstæða yfirsýn yfir núverandi mannvirki, húsakost og framboð þjónustu á hálendinu sem mun nýtast við næstu endurskoðun landsskipulagsstefnu. Afurðir verkefnisins nýtast einnig við vinnslu annarra framfylgdarverkefna landsskipulagsstefnu, svo sem greiningu víðerna, mat á þörf fyrir uppbyggingu ferðaþjónustumannvirkja og nánari stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins.
Vinna við verkefnið felst fyrst og fremst í söfnun og skráningu gagna í samvinnu við Þjóðskrá og sveitarfélög á hálendinu, auk fjölmargra annarra stofnana og félagasamtaka sem málið varðar. Niðurstöður verkefnisins verða teknar saman í skýrslu þar sem dregin verður upp mynd af núverandi stöðu fyrir hálendið í heild og einstök sveitarfélög.