Fréttir


21.12.2016

Búrfellslundur

Mat á umhverfisáhrifum - álit Skipulagsstofnunar

Álitsgerð Skipulagsstofnunar liggur fyrir

Skipulagsstofnun hefur lokið álitsgerð vegna Búrfellslundar, 200 MW vindorkuvers við Búrfell í Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi samkvæmt lögum nr. 106/2000. 

Álit Skipulagsstofnunar og matsskýrsla Landsvirkjunar er aðgengileg hér. Álitið liggur einnig frammi hjá Skipulagsstofnun.

Landsvirkjun áformar að reisa 200 MW vindorkuver við Búrfell. Orkuverið yrði í hópi stærstu virkjana landsins. Engin sambærileg vindorkuver eru fyrir hér á landi, en reistar hafa verið tvær vindmyllur í Þykkvabæ og tvær tilraunavindmyllur Landsvirkjunar við Búrfell. Reynsla af umhverfisáhrifum stakra vindmylla er lítil hér á landi, en vindorkuver af því umfangi sem hér um ræðir felur í sér algjört nýmæli hvað varðar skipulag og mat á umhverfisáhrifum í íslensku umhverfi. Mikilvægt er að umhverfismat slíkra framkvæmda byggi á bestu fáanlegu þekkingu um umhverfismat vindorkuvera sem safnast hefur í nágrannalöndum okkar á síðustu árum um leið og gætt er að staðbundnum aðstæðum hér á landi. Jafnframt ber að hafa í huga varúðarreglu umhverfisréttar við framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum og leggja varúðarsjónarmið til grundvallar þegar umhverfisáhrif framkvæmda eru metin.

200 MW vindorkuver við Búrfell felst í að reisa 58-67 allt að 150 metra háar vindmyllur á 33-40 km2 svæði. Til samanburðar eru tilraunavindmyllurnar tvær sem nú standa við Búrfell 77 metra háar, vindmyllurnar tvær í Þykkvabæ 74 m háar, möstur á nýjum háspennulínum yfirleitt áætluð um 30  m há og turn Hallgrímskirkju 74,5 m hár. Til að gefa frekari tilfinningu fyrir umfangi framkvæmdanna má taka dæmi af því að framkvæmdasvæðið, sem gert er ráð fyrir að verði þakið neti mjög stórra vindmylla, er á stærð við Mývatn. Þannig verður um að ræða ein stærstu og sýnilegustu mannvirki á miðhálendinu til þessa, sem munu skera sig meira úr umhverfinu en stærstu mannvirki sem fyrir eru.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði er hluti víðáttu sem afmarkast af Sauðafelli og Heklu í suðri, Búrfelli og Skeljafelli í vestri,  Sandafelli og Stangarfjalli í norðri og Valafelli í austri. Það liggur á mörkum láglendis og hálendis og svæða með manngerða og náttúrulega ásýnd. Að stærstum hluta liggur það  innan marka miðhálendis Íslands, en um skipulagsmál miðhálendisins er mörkuð sérstök stefna í landsskipulagsstefnu. Samkvæmt landsskipulagsstefnu skal standa vörð um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist og skal uppbygging innviða taka mið af sérstöðu þess.

Ljóst er að áhrif á landslag og ásýnd vega þungt við umhverfismat vindorkuvera, þar sem um er að ræða stór mannvirki sem eru sýnileg um langan veg. Sérstaklega á það við um eins umfangsmikil framkvæmdaáform og er að ræða í þessu tilviki og þegar staðsetning er áformuð á og nærri lítt snortnum svæðum.

Í áliti Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 106/2000 skal stofnunin taka afstöðu til þess hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og lýsi umhverfisáhrifum framkvæmdar á fullnægjandi hátt.

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að áformuð framkvæmd við 200 MW vindorkuver við Búrfell sé líkleg til að hafa veruleg áhrif á landslag og víðerni auk ferðaþjónustu og útivistar. Áhrifamatið er þó háð óvissu, þar sem fullnægjandi greining liggur ekki fyrir á áhrifum framkvæmdarinnar á landslag og víðerni, sem aftur gerir að verkum að óvissa ríkir um áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Þá er þörf á frekari skoðun á áhrifum framkvæmdarinnar á fuglalíf. Áhrif á aðra áhrifaþætti – hljóðvist, gróður, jarðmyndanir og menningarminjar – eru almennt talin óveruleg, nema staðbundið á og næst framkvæmdasvæðinu þar sem gætir nokkurra neikvæðra áhrifa vegna beins rasks á landi og hljóðmengunar.

Fyrir liggur að framkvæmdin er í biðflokki tillögu að rammaáætlun og fellur illa að áherslum Landsskipulagsstefnu 2015-2026 á vernd víðerna og landslagsheilda. Þá hefur ekki verið gert ráð fyrir vindorkuverinu í skipulagsáætlunum viðkomandi sveitarfélaga.

Í ljósi framangreinds um skipulagslega stöðu verkefnisins sem og niðurstöður mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar telur Skipulagsstofnun tilefni til að endurskoða áform um uppbyggingu 200 MW vindorkuvers við Búrfell. Niðurstöður um mikil umhverfisáhrif gefa, að mati stofnunarinnar, tilefni til að skoða hvort önnur landsvæði henta betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi. Þá kann að vera tilefni til að skoða hvort umfangsminni uppbygging á betur við á þessu svæði, bæði hvað varðar hæð og fjölda vindmylla. Frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þarf að gerast við gerð rammaáætlunar, landsskipulagsstefnu og skipulagsáætlana sveitarfélaga. Einnig kann framkvæmdin að koma aftur til skoðunar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, verði breytingar á framkvæmdaáformum.