10.000 tonna eldi á laxi í Seyðisfirði
Mat á umhverfisáhrifum – álit Skipulagsstofnunar
Skipulagsstofnun hefur gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum 10.000 tonna eldis á laxi í Seyðisfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða. Álitið og matsskýrsla Fiskeldis Austfjarða eru aðgengileg hér.
Áformuð framkvæmd
Fiskeldi Austfjarða áformar 10.000 tonna framleiðslu á laxi í sjókvíum á þremur eldissvæðum í Seyðisfirði. Eldið verður kynslóðaskipt með 10.000 tonna hámarkslífmassa. Fyrirhugað er að setja 1,7 milljónir seiða á hvert eldissvæði þriðja hvert ár.
Gert er ráð fyrir að hvíla eldissvæðin í eitt ár á milli árganga. Á hverjum tíma verða því tvö eldissvæði í notkun og eitt í hvíld. Stefnt er að fyrstu útsetningu vorið 2022. Á hverju eldissvæði verða 12 eldiskvíar sem eru festar saman í þyrpingu, því verða alls 24 kvíar í firðinum hverju sinni.
Umhverfisáhrif
Náttúrulegir stofnar laxfiska
Skipulagsstofnun telur að sjókvíaeldi á 10.000 tonnum af frjóum laxi í Seyðisfirði geti haft verulega neikvæð áhrif á villta laxastofna m.t.t. erfðablöndunar, enda samræmist það ekki núgildandi áhættumati erfðablöndunar. Áhrif eldis á 6.500 tonnum af frjóum laxi, líkt og núgildandi áhættumat heimilar, eru talin óveruleg á þá laxastofna sem áhættumatið tekur til en gera má ráð fyrir neikvæðum áhrifum á litla laxastofna í ám sem áhættumatið tekur ekki til. Þegar horft er til þess að áhrif slíkrar erfðablöndunar geta verið óafturkræf, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á erfðafræðilega fjölbreytni, telur Skipulagsstofnun að eldi á frjóum laxi geti haft nokkuð eða talsvert neikvæð áhrif á villta laxastofna.
Samfélag
Að mati Skipulagsstofnunar eru áhrif á samfélag óvissu háð, en geta orðið talsvert eða verulega neikvæð ef ekki næst sátt um framkvæmdina í nærsamfélaginu. Byggir sú afstaða m.a. á fjölda athugasemda við frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða og undirskriftalista íbúa gegn fiskeldisáformum í Seyðisfirði. Fá ef nokkur fordæmi eru fyrir viðlíka andstöðu heimamanna við sjókvíaeldi. Skipulagsstofnun vekur í því sambandi athygli á að yfirstandandi er vinna við gerð strandsvæðisskipulags fyrir Austfirði sem gera má ráð fyrir að verði auglýst til kynningar á vormánuðum 2022. Strandsvæðisskipulag leggur grunn að leyfisveitingum fyrir framkvæmdum og annarri starfsemi á því svæði sem skipulagið tekur til. Í skipulagsvinnunni er horft heildstætt á ólíka hagsmuni og sjónarmið sem vega þarf saman til að ákveða framtíðarnýtingu viðkomandi fjarða og flóa. Að mati Skipulagsstofnunar er æskilegt að strandsvæðisskipulag liggi fyrir áður en einstökum svæðum innan skipulagssvæðisins er ráðstafað til ákveðinnar nýtingar.
Ásýnd, útivist og ferðaþjónusta
Skipulagsstofnun telur að sjónræn áhrif verði talvert neikvæð en afturkræf verði eldi hætt. Stofnunin telur einnig að fiskeldið geti haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna af landslagi svæðisins og náttúrulegu yfirbragði þess. Fiskeldið geti því haft neikvæð áhrif á ímynd Seyðisfjarðar, sem ekki er sjálfgefið að gangi strax til baka ef eldi verður hætt. Áhrif á ferðaþjónustu geta orðið talsvert neikvæð en eldissvæði koma til með að liggja í mikilli nálægð við siglingaleið Norrænu og farþegaskipa.
Siglingaleiðir og fjarskipti
Landfræðilegar aðstæður og skipaumferð setja staðsetningu sjókvía í Seyðisfirði þröngar skorður. Mikilvægt er að tryggja að fiskeldi hafi ekki áhrif á siglingaleiðir eða öryggi sjófarenda. Því telur Skipulagsstofnun æskilegt að strandsvæðaskipulag Austfjarða liggi fyrir áður en svæðum innan fjarðarins er ráðstafað til sjókvíaeldis. Komi til leyfisveitinga áður en strandsvæðaskipulag liggur fyrir telur Skipulagsstofnun þörf á að leyfisveitendur hafi samráð við svæðisráð um gerð strandsvæðaskipulags á Austfjörðum. Þá setur lega Farice-1 sæstrengsins staðsetningu sjókvía frekari skorður. Brýnt er að gæta þess að botnfestingar sjókvía og akkeri þjónustubáta verði ekki innan helgunarsvæðis strengsins.
Botndýralíf
Skipulagsstofnun telur að áhrif vegna uppsöfnunar lífræns úrgangs á sjávarbotni verði talsvert neikvæð á takmörkuðu svæði undir og nærri eldisstað en áhrifin minnki með aukinni fjarlægð frá eldisstað.
Fisksjúkdómar og laxalús
Enn sem komið er finnast fáir smitsjúkdómar í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur samanborið við önnur lönd. Nýlegar fregnir benda til þess að veira sem valdið getur alvarlegum sjúkdómi í laxi, svokallaður blóðþorri (ISA), hafi fundist í sjókvíaeldi á Austfjörðum. Telur Skipulagsstofnun því ákveðna óvissu til staðar um áhrif framkvæmdarinnar á villta laxfiska með tilliti til sjúkdóma.
Ekki hefur ennþá orðið vart við laxalús í fiskeldi á Austfjörðum en gera má ráð fyrir að ekki þurfi mikla breytingu á skilyrðum í sjónum til að lúsin nái sér á strik. Í Noregi er litið á laxalús sem eina helstu ógn við villtan lax og reynslan frá Vestfjörðum sýnir að laxalús geti orðið að vandamáli. Þá er þekking á áhrifum laxalúsar frá sjókvíaeldi á villta sjóbleikju takmörkuð. Af þessum sökum telur Skipulagsstofnun óvissu til staðar um áhrif laxalúsar frá eldinu á villta laxfiska.
Náttúruvá
Skipulagsstofnun telur þær náttúruhamfarir sem orðið hafa á Seyðisfirði nýverið skýra áminningu um að taka verði tillit til þeirrar náttúruvár sem fyrirhuguðu sjókvíaeldi í Seyðisfirði getur stafað hætta af. Telur stofnunin ákveðna óvissu til staðar um áhrif náttúruvár á eldisbúnað, enda geta slíkir atburðir leitt til skemmda á eldisbúnaði og slysasleppinga.
Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum er lokaþrep umhverfismatsferlis framkvæmdar og undanfari leyfisveitinga fyrir viðkomandi framkvæmd. Nánari upplýsingar um umhverfismat framkvæmdarinnar er að finna í áliti Skipulagsstofnunar og matsskýrslu Fiskeldis Austfjarða sem nálgast má hér.