Almenningur og hagsmunaaðilar

Eitt af markmiðum umhverfismats framkvæmda er að tryggja aðkomu almennings að umhverfismati og samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða.

Auk þess að geta leitt til meiri sáttar um framkvæmdir getur markvisst samráð við almenning frá upphafi umhverfismatsferlisins skilað gagnlegum upplýsingum inn í matsvinnuna. Heimamenn á hverjum stað búa oft yfir staðbundinni þekkingu á umhverfi og aðstæðum sem nýst getur við hönnun framkvæmdar og mat á umhverfisáhrifum hennar.

Leiðbeiningar


Hverjir geta gefið umsagnir og hvað verður um þær?

  • Allir geta gefið umsögn um framkvæmdir og umhverfismat þeirra.
  • Þær umsagnir sem berast á kynningartíma matsáætlunar og umhverfismatsskýrslu eru hluti þeirra gagna sem Skipulagsstofnun tekur afstöðu til við gerð álits stofnunarinnar um matsáætlun og umhverfismat framkvæmdar.

Kynning og samráð við umhverfismat

Matsáætlun

Þegar framkvæmdaraðili hefur skilað matsáætlun til Skipulagsstofnunar kynnir stofnunin hana opinberlega fyrir almenningi og hefur aðgengilega á vef stofnunarinnar. Almenningi gefst þá kostur á að kynna sér matsáætlunina og senda umsögn til Skipulagsstofnunar.

Þegar Skipulagsstofnun hefur gefið út álit sitt um matsáætlun framkvæmdarðila er álitið ásamt matsáætluninni aðgengilegt á vef stofnunarinnar. Þeir sem gáfu umsagnir í ferlinu fá einnig tilkynningu um að álitið liggi fyrir. 

Umhverfismatsskýrsla

Kynning og samráð við almenning við vinnslu umhverfismatsskýrslu fer eftir aðstæðum í hverju tilviki, í samræmi við það sem lýst er í matsáætlun fyrir viðkomandi framkvæmd.

Þegar framkvæmdaraðili hefur lagt fram umhverfismatsskýrslu til Skipulagsstofnunar kynnir stofnunin hina fyrirhuguðu framkvæmd og umhverfismatsskýrslu fyrir almenningi og hefur aðgengilega á netinu. Þá gefst almenningi kostur á að kynna sér framkvæmdina og umhverfismat hennar og senda Skipulagsstofnun umsögn.

Skipulagsstofnun vinnur álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á grundvelli umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila, framkomnum umsögnum umsagnaraðila og almennings. Álit Skipulagsstofnunar er kynnt þeim aðilum sem veittu umsögn um umhverfismatsskýrsluna og er gert aðgengilegt almenningi á netinu. 

Kæruheimildir

Almennt geta þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana kært ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Það á t.d. við landeigendur, nágranna og veiðifélög. Sama gildir um umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök sem uppfylla tiltekin skilyrði. Þetta á við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um það hvort framkvæmdir í flokki B skuli háðar umhverfismati.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og álit stofnunarinnar um matsáætlun eru ekki kæranleg. Hins vegar er þeim sem eiga lögvarða hagsmuni, þ.m.t. umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum, heimilt að kæra framkvæmdaleyfi sveitarstjórna um matsskyldar framkvæmdir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.