Hvernig á að flokka landbúnaðarland?

Kynningarfundur um nýjar leiðbeiningar

  • 10.6.2021

- Upptaka og glærur aðgengilegar hér fyrir neðan -

Skipulagsstofnun, í samvinnu við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, stendur fyrir opnum kynningarfundi um flokkun landbúnaðarlands fimmtudaginn 10. júní kl. 13.00–14.30. Fundurinn verður haldinn í sal Sólon á 2. hæð, Bankastræti 7a í Reykjavík, og eru gestir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Fundinum verður einnig streymt á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar. Ekki er þörf á að skrá sig á fundinn.

Á fundinum verður fjallað um leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands sem gefnar voru út nýlega af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og munu tveir af höfundum leiðbeininganna kynna efni þeirra. Einnig verður fjallað um þá reynslu sem skapast hefur meðal sveitarfélaga af flokkun landbúnaðarlands, en nokkur sveitarfélög hafa þegar flokkað landbúnaðarland sitt í tengslum við gerð aðalskipulags. Að loknum erindum gefst fundargestum og þeim sem fylgjast með í streymi tækifæri til að leggja fram spurningar og munu framsögumenn sitja fyrir svörum.

Um leiðbeiningarnar

Leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands með tilliti til hæfni til ræktunar voru unnar í samstarfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Skipulagsstofnunar og Landbúnaðarháskóla Íslands. Leiðbeiningarnar fjalla um flokkun lands með tilliti til hæfni þess til ræktunar með það að markmiði að vernda til framtíðar það land sem hentar best til matvæla- og fóðurframleiðslu. Að auki getur flokkunin gagnast við ákvarðanir um ræktun iðnaðarjurta. Niðurstöðum flokkunarinnar er ætlað að nýtast sveitarfélögum við gerð aðalskipulags.

Leiðbeiningarnar byggjast á ákvæðum jarðalaga, en samkvæmt þeim er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilt að gefa út leiðbeiningar um hvernig skuli flokka landbúnaðarland í aðalskipulagi. Frá 1. júlí nk. verður sveitarfélögum skylt að flokka land með tilliti til ræktunarmöguleika samkvæmt nýsamþykktum breytingum á jarðalögum. Í Landsskipulagsstefnu 2015–2026 er enn fremur gengið út frá því að skipulag í dreifbýli byggist á flokkun landbúnaðarlands.

Dagskrá

Inngangsorð
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar 
Aðdragandi og efnistök  Glærur
Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur 
Gögn og aðferð við flokkun  Glærur
Guðrún Lára Sveinsdóttir, Skipulagsstofnun 
Reynsla sveitarfélaga af flokkun landbúnaðarlands við skipulagsákvarðanir  Glærur
Vigfús Þór Hróbjartsson, skipulagsfulltrúi umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita 
Umræður


Upptaka af fundinum