Skipulagslög í 100 ár
Árið 2021 eru 100 ár liðin frá samþykkt fyrstu laga um skipulagsmál hér á landi. Af því tilefni er á árinu 2021 bryddað upp á ýmissi umræðu um skipulagsmál í fortíð, nútíð og framtíð.
Þann 27. júní árið 1921 staðfesti ríkisráð Íslands fyrstu lög um skipulagsmál hér á landi, lög nr. 55/1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Þau fólu í sér skyldu til að vinna skipulag fyrir kauptún og sjávarþorp með 500 eða fleiri íbúum.
Lög um skipulag kauptúna og sjávarþorpa nr. 55/1921
Greinaröð í tilefni aldahvarfa í skipulagsmálum
Í tilefni 100 ára afmælis skipulagslöggjafarinnar hefur Skipulagstofnun hrint af stað greinaröð sem birtist á netmiðlinum Kjarnanum og vefmiðlum Skipulagsstofnunar. Þar deila greinarhöfundar úr ólíkum áttum hugmyndum og vangaveltum um mannlíf í hinu byggða umhverfi frá ýmsum hliðum. Fyrsta greinin birtist á afmælisdegi löggjafarinnar, 27. júní 2021, en greinarnar birtast síðan hver af annarri eftir því sem líður á árið.
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, Skipulag borgar og bæja í fortíð og framtíð. Birt 27. júní 2021.
Hrafnhildur Bragadóttir, Umgjörð um öðruvísi framtíð. Birt 14. júlí 2021.
Sverrir Norland, Hvernig á góð borg að vera? Birt 7. ágúst 2021.
Guðmundur Haukur Sigurðarson, Skipulagðar samgönguvenjur. Birt 23. ágúst 2021.
Edda Ívarsdóttir, Þetta gengur ekki lengur! – F(b)íllinn í herberginu. Birt 28. ágúst 2021.
Sif Sigmarsdóttir, Hvernig viljum við lifa? Birt 16. september 2021.
Hildur Knútsdóttir, Þorpið í borginni. Birt 30. september 2021.
Kolbeinn Marteinsson, Af hverju skipulag skiptir máli. Birt 20. október 2021.
Hildigunnur Sverrisdóttir, Skipulag til allra heilla? Birt 1. nóvember 2021.
Andri Snær Magnason, Hver er hugmyndin? Birt 16. nóvember 2021.
Lilja G. Karlsdóttir, Umferðareyjan þín? Birt 2. desember 2021.
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, Hugmyndin um góða byggð. Birt 4. janúar 2022.
Um skipulag bæja – aldarspegill
Um svipað leyti og fyrstu skipulagslögin voru sett, eða árið 1916, kom út tímamótarit um skipulagsmál hér á landi, ritið „Um skipulag bæja“ eftir Guðmund Hannesson lækni.
Rit Guðmundar hafði með margvíslegum hætti áhrif á þróun skipulagsmála hér á landi og hugmyndir sem þar eru settar fram má meðal annars sjá endurspeglast í ákvæðum fyrstu skipulagslaganna. Einnig nýttist ritið sem leiðbeiningarit í þeirri miklu skipulagsvinnu sem unnin var fyrir þéttbýlisstaði landsins fram að seinna stríði. Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan rit Guðmundar kom út, og bæir landsins tekið breytingum, á rit hans ennþá fullt erindi í umræðu um skipulagsmál.
Árið 2016, þegar 100 ár voru liðin frá útgáfu rits Guðmundar, stóð Skipulagsstofnun ásamt Hinu íslenska bókmenntafélagi að endurútgáfu þess í sinni upphaflegu mynd ásamt ritgerðasafninu „Aldarspegill“. Í ritgerðasafninu er fjallað um ýmsar hliðar skipulagsmála út frá skrifum Guðmundar og skoðað hversu vel hugmyndir hans hafa staðist tímans tönn. Þar fjallar Ásdís Hlökk Theodórsdóttir um bæjarmynd og byggðamynstur, Pétur H. Ármannsson um húsagerð og hönnun, Salvör Jónsdóttir skoðar félagslega og efnahagslega þætti skipulagsmála og Dagur B. Eggertsson skrifar um tengsl lýðheilsu og skipulags. Loks bregða Páll Pétursson og Sigrún Magnúsdóttir ljósi á persónu og lífshlaup Guðmundar Hannessonar.
Hér má nálgast vefútgáfu ritanna.
Saga Skipulagsstofnunar
Þótt fyrstu skipulagslögin hafi verið sett árið 1921 var það ekki fyrr en með breytingu á þeim árið 1938 sem lagður var grunnur að embætti skipulagsstjóra ríkisins, sem við þekkjum í dag sem Skipulagsstofnun. Í tilefni 80 ára afmælis stofnunarinnar árið 2018 var tekið saman yfirlit um sögu stofnunarinnar, sjá hér.