Hvammsvirkjun - Endurskoðun matsskýrslu að hluta
Landsvirkjun lagði Hvammsvirkjun fram til umhverfismats á árunum 2001-2003 sem hluta af verkefni um allt að 150 MW virkjun Þjórsár við Núp, en þar voru lagðir fram tveir kostir á útfærslu virkjunar, annarsvegar Núpsvirkjun í einu þrepi og hinsvegar virkjun í tveimur þrepum sem samanstóð af Hvammsvirkjun og Holtavirkjun. Umhverfismatinu lauk með úrskurði Skipulagsstofnunar 19. ágúst 2003 þar sem fallist var á framkvæmdina með tilteknum skilyrðum. Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti úrskurðinn 27. apríl 2004 með tveimur nýjum skilyrðum og breytingum á einu skilyrði.
Ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því álit (áður úrskurður) Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
Rangárþing ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur óskuðu í júlí 2015 eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort endurskoða þurfi matsskýrslu um Hvammsvirkjun að hluta eða í heild, áður en leyfi væru veitt.
Skipulagsstofnun tók málið til meðferðar og kynnti umsagnaraðilum og almenningi í samræmi við 12. gr. laga nr. 106/2000 og 28. gr. reglugerðar nr. 660/2015.
Í ákvörðun Skipulagsstofnunar er eingöngu tekin afstaða til þess hvort endurskoða þurfi matsskýrslu með tilliti til Hvammsvirkjunar, sem er einn af þeim virkjunarkostum sem fjallað var um í mati á umhverfisáhrifum allt að 150 MW virkjunar Þjórsár við Núp 2001-2003.
Í samræmi við það sem gerð er grein fyrir köflum 4-14 í ákvörðuninni er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að endurskoða skuli að hluta matsskýrslu um Hvammsvirkjun. Nánar tiltekið skal endurskoða þá hluta umhverfismats virkjunarinnar sem varða áhrif á landslag og ásýnd lands og áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Að öðru leyti eru að mati Skipulagsstofnunar ekki forsendur til að krefjast endurskoðunar á matsskýrslu um Hvammsvirkjun samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000. Fara skal með endurskoðunina samkvæmt 8.-11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum.
Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 má kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 23. janúar 2016.
Ákvörðun Skipulagsstofnunar má nálgast hér .