Fréttir


  • Við gatnamót Baldursgötu og Skólavörðustígs

17.2.2016

Breytingar á skipulagslögum - grenndarkynningar

Í febrúarmánuði samþykkti Alþingi lög nr. 7/2016 um breytingar á skipulagslögum nr. 123/2010. Markmið breytinganna er að rýmka og skýra ákvæði um grenndarkynningar.

Grenndarkynning í þegar byggðum hverfum  og dreifbýli

Með lögunum er gerð sú breyting á 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga að orðin „í þegar byggðu hverfi” eru felld brott. Með því móti gefst möguleiki á að beita grenndarkynningu jafnt í dreifbýli sem í þegar byggðum hverfum vegna leyfisumsókna þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.

Samhliða er með lögunum gerð orðalagsbreyting á 1. málsl. 5. mgr. 13. gr. þess efnis að í stað orðsins „varðandi“ kemur „og í samræmi við“. Það felur í sér að framkvæmd sem leyfi er veitt fyrir á grundvelli aðalskipulags þarf bæði að vera í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Sambærileg breyting er gerð á orðalagi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sem tekur bæði til framkvæmda- og byggingarleyfis.

Frávik frá kröfum um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu

Þá er með lögunum skerpt á orðalagi 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga hvað varðar frávik frá deiliskipulagi. Samkvæmt breytingunni er sveitarstjórn heimilt, við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfa, að víkja frá skilmálum án þess að breyta deiliskipulaginu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Tilefni þessarar breytingar var mismunandi lagatúlkun á þágildandi orðalagi 3. mgr. 43. gr. og því ákveðið að taka af skarið hvaða skilning beri að leggja í orðalagið.

Breytingar á skipulagslögum má nálgast á vef Alþingis.