Fréttir


  • Horft yfir Elliðavatn

12.11.2015

Um loftslagsmál og skipulag

Í tilefni af Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París

Lofts­lags­ráðstefna Sam­einuðu þjóðanna hefst í Par­ís 30. nóv­em­ber næst­kom­andi þar sem vonir eru bundnar við að þjóðir heims samþykki nýja stefn­u í lofts­lags­mál­um. En þótt loftslagsvandinn sé sameiginlegur vandi allra jarðarbúa og kalli því á slíkt samræmt átak eru lausnirnar oft staðbundnar.

Hér á landi hafa stjórnvöld samþykkt stefnumörkun í loftslagsmálum til 2050 og aðgerðaáætlun til að vinna að skuldbindingum Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu. Í þeirri síðarnefndu eru settar fram aðgerðir á ýmsum sviðum til að vinna gegn loftslagsbreytingum, meðal annars í samgöngumálum og með aukinni skógrækt og endurheimt votlendis. 

 

Skipulag sem stjórntæki í loftslagsmálum

Eitt þeirra stjórntækja sem stjórnvöld geta beitt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum er gerð skipulags, sem felur í sér markmið og ákvarðanir um þróun byggðar og landnotkunar til framtíðar. Í grunninn má segja að skipulagsgerð hafi tvíþættu hlutverki að gegna þegar kemur að loftslagsmálum. Annarsvegar hafa landnotkun og fyrirkomulag samgangna og byggðar áhrif á hversu mikil losun gróðurhúsalofttegunda er og hvernig staðið er að kolefnisbindingu í gróðri með skógrækt eða verndun votlendis. Hinsvegar hefur hlýnun og afleiðingar loftslagsbreytinga áhrif á fyrirkomulag byggðar,  innviða og landnýtingar vegna hækkandi sjávarstöðu og aukinnar flóðahættu.

Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að landsskipulagsstefnu skal skipulag landnotkunar stuðla að öryggi almennings gagnvart loftslagsbreytingum. Þannig verði við skipulagsgerð sveitarfélaga hugað að því hvernig megi með skipulagsaðgerðum draga úr losun gróðurhúsaloftteg­unda  og jafnframt tekið tillit til áhrifa loftslagsbreytinga, svo sem vegna hækkunar sjávarborðs.

 

Dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með skipulagi

Lykilaðgerð í viðbrögðum við loftslagsbreytingum á heimsvísu er að auka hlut endurnýjanlegrar orku í stað jarðefnaeldsneytis en samhliða er mikilvægt að bæta orkunýtni og minnka eftirspurn eftir orku. Að þessu má vinna í skipulagi. Með skipulagi byggðar og innviða er hægt að hafa áhrif á lífsstíl, athafnir og hegðun, til dæmis með þéttri og blandaðri byggð og fjölbreyttari valkostum í samgöngum. Almennt er um að ræða útfærslu í skipulagi sem miðar að því að draga úr ferðaþörf með ákvörðunum um staðsetningu nýrrar uppbyggingar og aðgengi að henni, blandaðri landnotkun og lifandi miðbæjum. Þar skiptir þéttleiki miklu máli og uppbygging í grennd við öflugar almenningssamgöngur þar sem íbúar eru ekki eins háðir notkun einkabílsins.

 

Brugðist við loftslagsbreytingum með skipulagi

Stefna í skipulagi þarf að taka mið af loftslagsbreytingum þannig að staðsetning og fyrirkomulag  uppbyggingar taki mið af fyrirsjáanlegri hættu vegna hækkunar sjávarborðs, strandrofs og flóða. Einnig þarf skipulag að stuðla almennt að því að  byggð hafi þanþol gagnvart loftslagsbreytingum. Það felur í sér að vanda til staðsetningar nýrra mannvirkja og að hanna byggingar með tillit til  breytinga í veðurfari og sjálfbærrar nýtingar vatns og orku. Þá getur einnig verið tilefni til að leita nýrra lausna í veitukerfum. Með svokölluðum sjálfbærum ofanvatnslausnum er hægt  að takast á við flóð með viðeigandi hönnun opinna svæða og gatna þannig að þau geti tekið við flóðum í stað þess að einblína á afkastamikil veitukerfi eða hefðbundnar flóðavarnir. Með því að stuðla að því að regnvatn geti hripað sem mest niður í jarðveginn innan þéttbýlis má draga úr óhóflegu álagi á fráveitukerfi og gera þéttbýl svæði betur fær um að aðlagast loftslagsbreytingum.

Grænir innviðir eins og tré, garðar og útivistarsvæði styðja við markmið um umhverfisgæði í þéttbýli. Slík svæði hafa áhrif á upplifun og vellíðan auk þess að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika og heilbrigði vistkerfa og binda kolefni. 

 

Dæmi um nálgun í aðalskipulagi

Dæmi um stefnu í loftslagsmálum er að finna í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 en þar er miðað að því að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 35% til ársins 2020 og 73% til 2050 miðað við losunina árið 2007. Til að ná því markmiði er meðal annars horft til byggðamynsturs sem einkennist af samfelldri og þéttri byggð og blöndun byggðar sem er ætlað að ýta undir aukna notkun almenningssamgangna og fjölgun hjólandi og gangandi vegfarenda. Auk þess er stefnt að samdrætti í myndun úrgangs, meiri vinnslu á hauggasi og kolefnisbindingu með skógrækt.

 

Að lokum

Ákvarðanir í skipulagsmálum sem eru teknar í dag hafa áhrif til langrar framtíðar og að því leyti er skipulagsgerð mikilvægt verkfæri til að fást við loftslagsbreytingar.

Víða er hægt að leita hugmynda og fyrirmynda um skipulagsgerð með tilliti til loftslagsmála. Hér að neðan eru ábendingar um nokkrar heimildir um sjálfbært skipulag og loftslagsmál: